Viðskipti erlent

Lokað fyrir viðskipti í Eurotunnel

Lestin sem gengur á milli Bretlands og Frakklands um Ermarsundsgöngin.
Lestin sem gengur á milli Bretlands og Frakklands um Ermarsundsgöngin. Mynd/AFP

Breska fjármálaeftirlitið hefur lokað fyrir viðskipti með hlutabréf í félaginu Eurotunnel í kauphöll Lundúna í Bretlandi (LSE). Eurotunnel rekur umferðargöng undir Ermarsund á milli Bretlands og Frakklands. Ástæða lokunarinnar er sú að stjórn Eurotunnel skilaði ekki uppgjöri fyrir síðasta ár áður en lokafrestur rann út.

Eurotunnel greindi frá því í síðasta mánuði að útgáfa uppgjörsins myndi frestast þar sem fyrirtækið ætti í viðræðum við lánadrottna fyrirtækisins vegna 6,3 milljarða punda skuldar félagsins. Af þeim ástæðum gætu endurskoðendur ekki lokið gerð ársuppgjörsins.

Talsmaður Eurotunnel sagði í gær að ársskýrsla fyrirtækisins myndi koma í fyrsta lagi út um miðjan mánuðinn.

Hluthafar í Eurotunnel geta eftir sem áður höndlað með bréf í félaginu á samevrópska hlutabréfamarkaðnum Euronext í París í Frakklandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×