Innlent

Vissu af hlerunum og eftirliti

Ragnar Stefánsson
Ragnar Stefánsson

Upplýsingar Þórs Whitehead um hleranir og eftirlit er gömul saga og ný fyrir Ragnari Stefánssyni, prófessor við Háskólann á Akureyri, sem var í forsvari Fylkingarinnar, samtaka ungra vinstrisinna, frá 1966 og fram á áttunda áratuginn.

"Við vissum vel af þessu," segir Ragnar. Fylkingarfólk leitaði eitt sinn staðfestingar á að símar þess væru hleraðir. "Sagt var í símtali að efna ætti til aðgerða á Skólavörðuholti og svo fylgst með hvort lögreglumenn kæmu aðvífandi, sem og þeir gerðu."

Ragnar segir fólk hafa gætt þess að símarnir væru hleraðir og því ekki rætt um leyndustu þrár og óskir. "Annars var ekkert að fela, aðgerðir okkar voru opnar enda reyndum við að ná til sem flestra til að fá fólk á fundi og í kröfugöngur."

Ragnar rifjar líka upp að yfirvöld sendu flugumann á fund Fylkingarinnar. "Hann var að sækja um vinnu í lögreglunni og var sendur til að afla um okkur upplýsinga. Við sögðum honum einhverja þvælu og á endanum sagðist hann hafa verið sendur."

Í grein Þórs kemur fram að síðasta heimild sem liggi fyrir um símhleranir sé frá 1968. Ragnar segir að sér kæmi ekki á óvart að símar hafi verið hleraðir eftir það. Ímyndar hann sér til dæmis að símar hafi verið hleraðir í aðdraganda fundar forseta Bandaríkjanna og Frakklands á Kjarvalsstöðum í maí 1973.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×