Innlent

Al Gore flytur erindi á Íslandi

handtak Al Gore og Ólafur Ragnar Grímsson takast í hendur í New York.
handtak Al Gore og Ólafur Ragnar Grímsson takast í hendur í New York.

Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hefur þegið boð Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að heimsækja Ísland. Mun Gore kynna sér árangur Íslendinga á sviði endurnýjanlegrar orku og tilraunaverkefni um eyðingu koltvísýrings úr andrúmsloftinu, auk þess sem hann mun ræða breytingar í hafinu umhverfis Ísland. Þá mun hann halda hér opinberan fyrirlestur.

Al Gore er áhrifamikill talsmaður um brýna nauðsyn þess að bregðast við hættunni af loftslagsbreytingum. Nýleg kvikmynd hans hefur vakið athygli og var sýnd á nýliðinni kvikmyndahátíð á Íslandi.

Ólafur Ragnar og Al Gore ræddust við í New York á fimmtudag um fjölmörg verkefni á sviði orkunýtingar og vísindarannsókna. Ólafur Ragnar fjallaði um samvinnuverkefni Íslendinga og annarra þjóða um nýtingu jarðhita og Gore lýsti áhyggjum sínum af breytingum sem kunna að vera að gerast í heimshöfunum, einkum á norðlægum hafsvæðum.

Ekki er frágengið hvenær Al Gore kemur til Íslands en í tilkynningu frá forsetaembættinu segir að heimsóknin verði bráðlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×