Innlent

Fyrrum ritstjórar DV dæmdir til að greiða 1,5 milljón króna í miskabætur

Mynd/Valli

Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, fyrrum ritstjórar DV, voru í dag dæmdir í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða saman eina og hálfa milljóna króna í miskabætur ásamt dráttarvöxtum frá 1. desember 2005, vegna ummæla sem birtust um Gunnar Hrafn Birgisson, sálfræðing í DV í júní árið 2005. Ummælin voru dæmd dauð og ómerk.

Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur höfðaði mál gegn ristjórum DV og 365 prentmiðlum ehf. vegna tólf ummæla um hann og staf hans sem birtust í blaðinu frá mars til október árið 2005. Hann krafðist þess fyrir dómi að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk, auk þess sem hann fór fram á 20 milljónir kóna í miskabætur og greiðslu málskostnaðar að fullu. Ummælin snerta flest meint klögumál á hendur Gunnari og meinta vanhæfni hans í starfi. Samkvæmt vitnisburði Garðars Baldvinssonar, fyrrverandi formanns Félags ábyrgra feðra, hafði félaginu borist fjölmargar kvartanir undan störfum Gunnars á þann hátt að hann hafi dregið taum mæðra í forræðisdeilum. Samkvæmt vitnisburði ritstjóra DV byggði umfjöllun blaðsins meðal annars á upplýsingum frá Félagi ábyrgra feðra. Jónas og Mikael sögðu fyrir dómi að öll ummælin hafi verið innan leyfilegra tjáningar fjölmiðils um málefni sem skipta almenning máli að fá upplýsingar um. Allar fullyrðingarnar í umræddum fréttum væru studdar heimildum og segðu frá því sem raunverulega gerðist.

Öll ummælin voru dæmd dauð og ómerk að frátöldum ummælunum „...Ólafur hefur leitað til þriggja annarra sérfræðinga sem allir hafna mati Gunnars" og „...endaði með allsherjarslagsmálum á biðstofu Gunnars."

365 Prentmiðlar ehf. voru sýknaðir af kröfum Gunnars. Þá voru Jónas og Mikael sýknaðir af refsikröfu hans en þeim er gert að greiða honum eina og hálfa milljón króna í miskabætur eins og áður segir. Þá féllst dómurinn á kröfu Gunnars um að forsendur og niðurstöður dómsins yrðu birtar í 1. eð 2. tölublaði eftir að dómur félli. Jónas og Mikael greiða óskipt 200 þúsund krónur vegna kostnaðar við birtingu dómsins sem og 740 þúsund í málskostnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×