Innlent

Nítján börn í lífshættu á hverjum degi

MYND/Vísir

Á hverjum degi eru nítján börn á Íslandi sett í lífshættu með því að láta þau sitja fyrir framan öryggispúða í bílum. Ný könnun á öryggi barna í bílum sýnir að þrjú af hverjum hundrað börnum eru ekki látin nota öryggisbúnað á leið í leikskólann.

Árlega gerir Umferðarstofa og Slysavarnafélagið Landsbjörg könnun á öryggi barna í bílum. Nú hafa verið birtar niðurstöður nýrrar könnunar sem gerð var í apríl en þá var öryggisbúnaður barna og notkun hans í bifreiðum kannaður við 68 leikskóla.

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, fræðslufulltrúi hjá Umferðarstofu, segir könnunina vera gerða í ellefta sinn. Þegar ástandið var sem verst 1997 þá voru 32% barna laus í bílum en í ár voru þau 3,2%.

Niðurstöður sýna einnig að 15% barna nota ekki fullnægjandi öryggisbúnað, það er að segja eru bara í bílbelti eða laus. Kristín segir börn á leikskólaaldri verða að vera í bílstólum eða á upphækkuðum púðum.

Kristín segir það slá sig hversu mörg börn eru fyrir framan uppblásanlegan virkan öryggispúða, í ár voru þau nítján og það þýðir það að nítján börn á hverjum einasta degi eru í bráðri lífshættu og þetta séu skelfilegar tölur.

Kristín segir ábyrgð foreldra mikla en börn þeirra sem ekki nota öryggisbúnað eru um 13% líklegri til að vera óspennt í bílnum. Foreldrar og forráðamenn gefa margar ástæður fyrir því að nota ekki öryggisbúnað fyrir börnin. Kristín segir foreldra oft skýla sér á bak við ástæður eins og að leiðin hafi verið stutt en það sé alls engin afsökun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×