Innlent

Óttast að Miðstöð mæðraverndar heyri sögunni til

MYND/E.Ól

Forstöðumaður Heilsuverndar barna óttast að Miðstöð mæðraverndar heyri sögunni til í núverandi mynd ef starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar á Barónsstíg verður flutt í Mjóddina. Starfsmenn Heilsuverndarstöðvarinnar vilja að ríkið reyni að fá húsið aftur.

Starfsmenn heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg afhentu í morgun Siv Friðleifsdóttur heilbrigðsáðherra undirskriftir þar sem flutningi starfseminnar í Mjóddina var mótmælt. Starfsfólkið segir húsnæðið í Mjóddinni, sem áður var keilusalur, standist ekki faglegar kröfur og þá sé verið að flytja frá vaxandi þekkingarþorpi í kringum Landspítalann og Háskóla Íslands.

Geir Gunnlaugsson segir að starfsmönnum finnist eins og heilsugæslan sé ekki jafnmikilvæg þrátt fyrir að talað sé um það að þjónusta eigi að vera öflug og menn vilji vinna að því.

Geir segist óttast að ákveðin starfsemi leggist af í núverandi mynd. Hann segir að mjög margir starfsmenn Miðstöðvar mæðraverndar séu tengdir sterkum böndum við Landspítalann og hlaupi á milli þannig að honum segist svo hugur að Miðstöð mæðraverndar heyri sögunni til innan heilsugæsslunnar, að minnsta kosti í því formi sem hún sé í dag, ef af flutningunum verður.

Kaupandi að húsnæðinu að Barónsstíg, Mark-hús, á að fá það afhent í ágúst en auglýsti það nýverið til leigu eða sölu. Starfsmenn Heilsuverndarstöðvarinnar vilja að yfirvöld grípi tækifærið og reyni að fá húsið aftur.

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra segir ákvörðun um söluna tekna áður en hún tók við embætti. Áfram sé stefnt að flutningunum og reynt verði að gera hið nýja húsnæði eins og gott fyrir starfsemina og mögulegt verði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×