Innlent

Segir aðhalds hafa verið gætt

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra vísar því á bug að íslenska ríkið gæti ekki nægilegs aðhalds í ríkisfjármálum.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri gagnrýndi íslensk stjórnvöld á fundi á fimmtudag fyrir að sýna ekki nægilegt aðhald í ríkisfjármálum á þenslutímum. Á sama tíma kynnti bankinn ákvörðun sína um að halda stýrivöxtum í fjórtán prósentum. „Það hefur verið mikið aðhald í ríkisfjármálunum og aðgerðir í þá veru hafa haft mikil sveiflujöfnunaráhrif út í samfélagið. Þetta sýna mælingar í þessum efnum,“ segir Árni og bendir á að sveiflujöfnunaráhrif ríkissjóðs hafi jafnvel verið meiri heldur en aðgerðir Seðlabanka Íslands. „Ég held að það sé vel hægt að sýna fram á það, með skýrum rökum, að sveiflujöfnunaráhrif vegna aðgerða ríkissjóðs hafi haft meiri áhrif heldur en sambærilegar aðgerðir Seðlabanka Íslands, án þess að í því felist sérstök gagnrýni á Seðlabankann.“

Í máli Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra á opnum fundi bankans á fimmtudag, kom fram að tímasetning stjórnvalda um að aflétta gjöldum af innfluttum matvælum í mars á næsta ári væri óheppileg. Því er Árni ekki sammála. „Allir þeir sem hafa fylgst með stjórnmálum síðustu árin, hafa mátt búast við því að farið yrði í lækkun virðisaukaskattsins fyrr eða síðar. Það hefur verið lengi á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. Eðlilegt er að besta tímasetningin komi til þegar stóriðjuframkvæmdum er að ljúka og þannig verður það í vor.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×