Innlent

Reyndi að rugla tollverðina

Kókaínsmyglarinn reyndi að villa um fyrir tollvörðum. Myndin er úr safni.
Kókaínsmyglarinn reyndi að villa um fyrir tollvörðum. Myndin er úr safni.

Hæstiréttur dæmdi í gær mann, sem sterklega er grunaður um að eiga þátt í stórfelldu kókaín-smygli, í gæsluvarðhald til 20. desember. Héraðsdómur hafði áður kveðið upp úrskurð á sömu lund.

Maðurinn er undir sterkum grun um aðild að innflutningi á nær tveimur kílóum af kókaíni, sem voru flutt inn frá Spáni 9. ágúst. Þau fundust í farangri konu sem var honum samferða til landsins. Maðurinn fór á undan henni í gegnum tollskoðun í þeirri von að tollverðir beindu athygli sinni að honum til þess að konan kæmist í gegn með fíkniefnin, að því er segir í greinargerð lögreglu. Honum tókst ekki það ætlunarverk sitt.

Enn fremur segir, að maðurinn hafi farið til Spánar þar sem hann hafi sótt efnið til annars sakbornings og afhent konunni það. Þáttur mannsins í málinu sé talinn verulegur þar sem hann hafi viðurkennt að hafa hitt tvo aðra sakborninga og skipulagt innflutning kókaínsins. Þá hafi hann fengið samferðakonu sína til þess að fara með efnin til baka og fara með þau í gegnum tollskoðun.

Ákæra hefur verið gefin út á hendur manninum og fleira fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×