Innlent

Fimleikahúsið stækkað á kjörtímabilinu

„Við erum búin að ná því fram sem við vildum," segir Bjarni Torfi Álfþórsson, formaður íþróttafélagsins Gróttu.

Lausn er fundin á deilu Gróttu og bæjar-yfirvalda um stækkun aðstöðu fimleikadeildar Gróttu á Hrólfsskálamel. Að sögn Bjarna verður fimleikahúsið stækkað um allt að 800 fermetra með því að byggja húsið til austurs og suðurs.

„Við erum búnir að fara yfir þetta með yfirþjálfurum fimleikadeildarinnar og þessi stækkun virðist geta mætt þeim þörfum sem deildin hefur," segir Bjarni.

Grótta hafði kært nýtt deiliskipulag sem bæjaryfirvöld staðfestu. Töldu Gróttumenn sig svikna um eitt þúsund fermetra viðbyggingu á Hrólfsskálamel sem samþykkt hafi verið í íbúakosningu. Grótta dró síðar kæruna til baka og fékk á mánudag tilboð frá bæjaryfirvöldum um áðurgreinda lausn málsins.

„Við ætlum ekki að vera með neinn þvergirðingshátt og gerum ekki meira í málinu en bíða eftir því að viðbyggingin rísi í lok kjörtímabilsins. Ef það gengur upp erum við mjög sáttir," segir Bjarni.

Eins og tíðkast hefur á Seltjarnarnesi með slík íþróttamannvirki mun bæjarsjóður kosta viðbygginguna og íþróttafélagið síðan fá þar inni fyrir æfingar sínar eftir þörfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×