Innlent

Nítján milljónum veitt til eldis sjávardýra

Heildarúthlutun AVS styrktarsjóðs í sjávarútvegi nemur 640 milljónum frá því sjóðurinn tók til starfa árið 2003 og alls hafa 210 styrkir verið afgreiddir. AVS rannsóknarsjóður veitir styrki til rannsóknaverkefna, sem auka verðmæti sjávarfangs og eru styrkir veittir til verkefna sem taka á öllum þáttum sjávarútvegs og fiskeldis.

Í ár bárust 128 umsóknir um styrki vegna verkefna, sem er ívið meira en árin á undan, og nemur meðalupphæð hvers styrks tæpum fimm milljónum króna.

Á fundi í fyrradag var starfsemi AVS rannsóknarsjóðsins fyrir árið 2006 kynnt og við það tækifæri sagði Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra að sú staðreynd að sjóðurinn hafi styrkt 210 verkefni undirstriki að stærri jafnt sem minni aðilar hljóti styrki.

Á næsta ári verður 19,1 milljón úthlutað til eldis sjávardýra, 25 milljónum verður úthlutað til kynbóta í þorskeldi og tíu milljónum til markaðsátaks bleikjuafurða. Sem dæmi um verkefni sem fengið hafa styrk úr sjóði AVS má nefna þróun á sósum úr þara og frostþurrkun á sjávarþangi.

Sjávarútvegsráðherra ræddi um mikilvægi þess að hafa sjóð á borð við AVS því þekkingarstarfsemi tengd sjávarútvegi fengi ekki fjármagn í gegnum aðra rannsóknarsjóði í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×