Hey mar, ammli, lol og hurru eru meðal algengra orða sem unglingar nota í daglegu máli. Breyting á málfari þeirra er að miklu leiti tilkomin vegna SMS skilaboða og notkunar á MSN þar sem hraði og form hafa mikil áhrif. Mest eru þetta styttingar á íslenskum orðum, eins og ammli og hurru, en þó er mikið mikið um skammstafanir úr ensku eins og lol(laughing out loud) sem unglingar hafa tileinkað sér og nota sín á milli. Þá eru bros-og fýlukallar mikið notaðir sem ákveðin stytting á málfari.
Ágústa Þorbergsdóttir hjá Íslenskri málstöð segir óvíst hvaða áhrif þetta muni hafa á íslenskuna en telur þó að þessi málnotkun afmarkist af ákveðnum aldurshópi og smitist ekki svo auðveldlega. Hún tekur sem dæmi skeytasendingar á síðustu öld sem einkenndust af knöppum stíl vegna kostnaðar. Það hafi ekki haft áhrif á málfar.
Í dag, á degi íslenskrar tungu, eru íslendingar hvattir til að vanda málfar sitt sérstaklega. Það er því spurning hvort SMS skeyti unglinga verði með lengra móti í dag en aðra daga.