Menning

Færeysk list í Hafnarborg

Edwards Fuglö listamaðurinn fæst við mannskepnuna sjálfa.
Edwards Fuglö listamaðurinn fæst við mannskepnuna sjálfa.

Á sýningunni „Einsýna List“ eru verk eftir sex færeyska listamenn og verður hún opnuð í Hafnarborg kl. 17 í dag. Einn þeirra, Astri Luihn, segir að þjóðirnar tvær geti lært margt hver af annarri.

Færeyskir listamenn, einkum málarar, hafa lengi sótt innblástur í stórbrotið umhverfið og hafið sem umlykur eyjarnar. Verkin á sýningunni „Einsýna List“ sýna svo ekki verður um villst að landslagið er enn áhrifavaldur í færeyskri myndlist þótt málverkin hafi vissulega módernískt yfirbragð og myndefnin séu fjölbreyttari.

Myndlistakonan Astri Luihn hefur sýnt töluvert hér á landi en hún blandar saman dúkristu og málverki með sérstakri tækni sem hún sjálf hefur þróað, þannig að úr verður áhugaverð samtímalist. „Við erum virkilega ánægð með að fá að sýna hér,“ segir Astri og útskýrir að farandsýning þessi nú komin að endastöð sinni. „Sýningin er sett upp í samvinnu við Norðurlandahúsið í Færeyjum, Listasafnið í Þrándheimi og Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn svo þetta er fjórði sýningarstaður hennar.“

Astri segir að það sé ávallt fræðandi og skemmtilegt að ferðast til Íslands. „Hér á landi er mjög opin umræða um menningu og listir. Mér finnst listalífið hér áhugavert, til dæmis á þeim vettvangi sem ég starfa, það er í grafíklist og málaralist. Við höfum líka margt að bjóða hvert öðru. Í Færeyjum er listafólk hefðbundnara en hér á landi – það getur verið bæði gott og slæmt eins og nýjungagirni hér á landi getur verið hvoru tveggja.“

Hún segir að samvinna listafólks frá Færeyjum og Íslandi sé að aukast með árunum. „Við höfum alltaf nóg að ræða um og það gagnast öllum að við skulum upplifa og gagnrýna verk hvers annars.“

Astri tekur dæmi af vídeólist og innsetningum sem ekki séu algengir miðlar meðal færeysks listafólks. „Flestir færeysku listamennirnir eru málarar en unga fólkið er farið að kanna meira og byrjað að sýna til dæmis innsetningar. Menningarpólitíkin í Færeyjum hamlar því samt og flestir ungu listamannanna kjósa að búa erlendis, einkum í Danmörku,“ útskýrir Astri.

Listamennirnir á sýningunni eru að mörgu leyti ólíkir en eiga það sameiginlegt að vera óhræddir við að gera tilraunir með tækni, form og myndbyggingu. Viðfangsefnin eru maðurinn og umhverfi hans en þorpin eru nú manngerður hluti landslagsins þar sem náttúran ríkti áður ein.

Elsti listamaðurinn á sýningunni, Ingálvur av Reyni, er fæddur 1920. Hann var einn af frumherjum hins óhlutbundna málverks í Færeyjum og er talinn til helstu litameistara sinnar kynslóðar á Norðurlöndum. Ingálvur lést fyrir rúmu ári en sonur hans, Eyðuns av Reyni tekur einnig þátt í sýningunni og er staddur hér á landi af því tilefni.

Eyðun málar landslagsverk en bak við kraftmikla pensilskrift hans ríkir þó ákveðið jafnvægi.

Málarinn Sigrun Gunnarsdóttir vinnur næsta naív verk. Málverk hennar eru hlaðin táknum og oft eru þetta myndir af mönnum og dýrum, sem ósjálfrátt leiða hugann að kyrralífsmyndum en starfsbróðir hennar Torbjørn Olsen málar altaristöflur og portrett, náttúruna og húsin í nágrenni vinnustofunnar og rannsakar þannig nánasta umhverfi sitt og síbreytilega birtuna í endurteknum tilraunum.

Edward Fuglø er yngstur listamannanna og að sögn Astri sá eini sem ekki hefur sýnt hérlendis áður. Maðurinn sjálfur er iðulega viðfangsefnið í verkum hans, sem geta verið kaldhæðin og súrrealísk og stundum pólitísk.

Sýningin stendur til 4. febrúar og er opin alla daga nema þriðjudaga, frá kl. 11 til 17 en á fimmtudögum er opið til kl. 21.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×