Viðskipti innlent

Actavis undirbýr næsta yfirtökuslag

Merck hefur lýst því yfir að samheitalyfjahluti þess sé til sölu. Söluverð hefur ekki verið gefið upp en í erlendum fjölmiðlum hefur upphæðin fjórir til fimm milljarðar evra verið nefnd. Það samsvarar 360 til 450 milljörðum króna. Til samanburðar greiddi bandaríski lyfjarisinn Barr um 2,5 milljarða dala fyrir króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva, sem Actavis missti af í yfirtökubaráttu í fyrrahaust. Það nemur um 175 milljörðum króna.

Að sögn Róberts Wessman, forstjóra Actavis, hefur fjármögnun í verkið þegar verið tryggð með aðkomu þriggja leiðandi alþjóðlegra banka. Gangi kaupin eftir verður Actavis þriðja stærsta fyrirtæki heims á sviði samheitalyfja með fimm prósenta markaðshlutdeild. Sameiginleg velta fyrir árið 2006 er um 3,2 milljarðar evra, um 290 milljarðar króna. Til samanburðar var velta Actavis á síðasta ári 1,4 milljarðar evra, um 126 milljarðar króna. „Nái yfirtakan fram að ganga munum við ná fram gríðarlegum samlegðaráhrifum. Merck hefur mjög sterka stöðu á svæðum sem við höfum haft litla eða enga starfsemi á, til dæmis í Suður-Evrópu og Ástralíu," segir hann.

Líklegt er að baráttan um Merck verði háð milli fárra öflugra lyfjafyrirtækja. Indverska samheitalyfjafyrirtækið Ranbaxy hefur þegar lýst yfir áhuga sínum á fyrirtækinu. Róbert telur að ákvörðanataka verði hröð í málinu. Gera megi ráð fyrir að salan verði frágengin fyrir maílok á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×