Innlent

Tryggingastofnun krefur landlausan öryrkja um 3 milljónir króna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðmundur Bjarnason, sem er öryrki, þarf að endurgreiða Tryggingastofnun 3,3 milljónir króna vegna örorkulífeyris sem sagður er vera ofgreiddur. Krafan frá Tryggingastofnun var lögð fram eftir að Þjóðskrá tók einhliða ákvörðun um að breyta lögheimili Guðmundar Bjarnasonar án nokkurs samráðs við hann.

Forsaga málsins er sú að Guðmundur hefur ferðast mikið til Asíu allt frá árinu 2004 og dvalið mikið í Kína. Tryggingastofnun ríkisins taldi grun leika á því að Guðmundur væri ekki búsettur á Íslandi. Var honum send skrifleg fyrirspurn um það í apríl 2006. Því bréfi svaraði hann með tölvupósti í júlí 2006 og sagðist halda heimili á Skúlagötu 72 ásamt maka sínum. Honum barst síðan aftur bréf frá Tryggingastofnun þremur dögum seinna. Þar var óskað upplýsinga um dagsetningar sem hann hafði dvalið í Kína. Hann sendi Tryggingastofnun allar þær upplýsingar sem spurt var um ásamt ljósriti úr vegabréfi sínu vegna áranna 2004 til 2006. Tryggingastofnun sendi í september 2006 öll þessi gögn til Þjóðskrár til að fá þeirra afstöðu í málinu.

Í nóvember í fyrra var Guðmundi síðan sent bréf þar sem tilkynnt var að hann hefði ekki haft lögheimili á Íslandi frá janúar 2004. Í kjölfar ákvörðunar Þjóðskrár sendi Tryggingastofnun ríkisins Guðmundi bréf þar sem greint var frá því að ekki hafi verið heimilt að greiða honum örorkulífeyri og bætur honum tengdar síðastliðin þrjú ár. Fyrir liggur því ofgreiðsla sem hann er krafinn um endurgreiðslu á að upphæð rúmar þrjár milljónir króna.

Tveir mánuðir eru liðnir frá því að lögmaður Guðmundar, Lára V. Júlíusdóttir, óskaði skýringa frá úrskurðarnefnd almannatrygginga og enn hafa engin svör borist. Þangað til situr Guðmundur eftir tekjulaus með ríflega þriggja milljóna króna skuld á bakinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×