Umhverfisráðherra vill að ríkið selji kolefnislosunarkvóta til iðnaðar í landinu. Fyrsta úthlutun losunarheimilda var tilkynnt í dag.
Úthlutunarnefnd losunarheimilda hafði 10,5 milljónir heimilda til ráðstöfunar - sem taka gildi um næstu áramót og eru til fimm ára. Níu fyrirtæki sóttu um - og fimm fengu þær heimildir sem þau sóttust eftir. Þau sem fengu voru Sementsverksmiðjan, járnblendifélagið, Alcan í Straumsvík, Norðurál Grundartanga og Alcoa Reyðarfirði.
Þau sem ekki fengu losunarheimildir voru Alcoa Bakka, Norðurál Helguvík, Alcan Þorlákshöfn og Tomahawk Developments sem áformar að reisa kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Aðeins starfandi fyrirtæki fengu þannig losunarkvóta og enginn kvóti fékkst fyrir áætlaðar stækkanir fyrirtækjanna. Tæpum tveimur milljónum losunartonna var haldið eftir.