Menning

Listahátíðin í Björgvin

Listahátíðir Bryn Terfel stórsöngvari.
Listahátíðir Bryn Terfel stórsöngvari.

Það verða eitt hundrað og sextíu dagskráratriði í boði á Listahátíðinni í Bergen í vor, en þar er dagskráin kynnt. Listahátíðin í Reykjavík kynnir sína dagskrá á föstudag.

Trio Mediæval, Cullbergballettinn sem hingað hefur komið í tvígang, Mischa Maisky, frumsýning á verki eftir Jon Fosse, Brottnámið úr kvennabúrinu eftir Mozart, kammerópera um síðustu daga Griegs og ungversk uppfærsla á Pétri Gaut eru meðal þess sem er í boði.

Norsk sænska tríóið Trio Mediæval nýtur mikil álits fyrir flutning sinn á verkum úr ólíkum áttum: pólýfóníska miðaldatónlist frá Bretlandi og Frans, samtímatónlist og norrænar ballöður og söngva.

Finnar voru í sviðsljósinu í fyrra, en í ár verða það Danir. Listahátíðin í Bergen er tónlistarhátíð fyrst og fremst: Danska útvarpshljómsveitin sækir þá heim og flytur verk eftir Nielsen.

Aðrir þekktir gestir eru Bryn Terfel sem syngur dagskrá með lögum Franz Schubert, Roberts Schumann, Jaques Ibert og Geralds Finzi, og Mischa Maisky og eistneski Fílharmóníukórinn. Transiteatret-Bergen setur upp í fyrsta sinn verk Brechts, Die Massnahme, og hefur það ekki verið flutt fyrr á Norðurlöndum. Stjarna Noregs, Jon Fosse, á verkið Ég er vindurinn á dagskránni og er það frumflutningur.

Tónskáld hátíðarinnar er Bent Sørensen og Carte Blanche & BIT20 Ensemble sýna dansverk við tónlist hans. Kirsuberjagarðurinn verður leikinn í sviðsetningu Yngve Sundvors. Þeir hafa þann sið Björgvinjarmenn að halda staðarskáld í fleiru en tónlist: ljóðskáld hátíðarinnar er Tone Hødnebø en myndlistarmaður Børre Sæthre.

Herlegheitin byrja 23. maí og standa til 5. júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×