Menning

„Hve­nær er hægt að leita í óskilamun hjá ykkur?“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Miðflokksmaðurinn Snorri Másson hefur vakið athygli á myndbandi markaðsstjórans Ólafs Alexanders Ólafssonar um óskilamuni og óskilamun.
Miðflokksmaðurinn Snorri Másson hefur vakið athygli á myndbandi markaðsstjórans Ólafs Alexanders Ólafssonar um óskilamuni og óskilamun. Tiktok/Vísir/Vilhelm

Orðið óskilamunir virðist hafi glatað merkingu sinni hjá ákveðnum hópi fólks sem sækir skemmtistaði landsins. Þessi hópur talar ekki um óskilamuni heldur um óskilamun sem einhvers konar rými sem geymir glataðar eigur.

Ólafur Alexander Ólafsson, markaðsstjóri skemmtistaðanna Auto og Nínu, heldur úti TikTok-reikningi þar sem hann fjallar meðal annars um lífið í skemmtanabransanum.

Nýlegt myndband á reikningnum hefst á vísun í jómfrúarræðu Snorra Mássonar, alþingismanns og áhugamanns um íslensku, þar sem þingmaðurinn lýsir stöðu íslenskrar tungu sem alvarlegri.

„Ég verð að segja að ég deili þessum áhyggjum Snorra Mássonar um grafalvarlega stöðu íslenskrar tungu hjá ungu íslensku fólki,“ segir Ólafur Alexander síðan í myndbandinu og setur það í samhengi við nýja málþróun fólk sem varðar óskilamuni.

@olafuralexander #stitch with @Snorri Másson ritstjóri Lífið á klúbbnum S02E03: Íslenskutími með Unc Óla 🇮🇸 #fyp #íslenskt #fyrirþig #íslenska ♬ original sound - olafuralexander

„Eru[ð] þið með einhvern óskilamun?“

Við rekstur á skemmtistöðum sé algengt að hinir ýmsu hlutir verði eftir, föt, veski og hvaðeina annað. Óskilamunir með öðrum orðum. Eigendurnir hafi síðan gjarnan samband til að reyna að endurheimta eignir sínar.

Ólafur Alexander rekur skemmtistaðina Auto og Nínu.Stöð 2

„Það er eitt ógeðslega fyndið trend sem ég hef tekið eftir út frá öllum þessum mörg hundruð skilaboðum sem ég hef fengið varðandi óskilamuni. Það virðist, allavega hjá hópi fólks, vera misskilningur um það hvað óskilamunir þýðir,“ segir hann.

Svo virðist sem fólk álíti óskilamuni ekki vera muni í óskilum heldur einhvers konar rými eða herbergi sem kallast óskilamunur eða óskilamun. Ólafur týnir til nokkur dæmi máli sínu til rökstuðnings.

Skilaboð frá einhverjum sem týndi bíl- og húslyklum sínum.

„Eruð þið með óskilamun? Í fljótu bragði kann þetta að hljóma eins og þessi manneskja sé að tala um sinn óskilamun í eintölu, eða bíl- og húslyklana sína,“ segir Ólafur en dæmin séu mun fleiri.

Hann birtir skjáskot af skilaboðum fólks sem forvitnast hvort staðurinn sé með óskilamun, hvenær sé hægt að leita í óskilamun eða hvernig maður geti nálgast óskilamun staðarins.

„Ég fatta þetta ekki alveg. Heldur fólk þá að óskilamun sé þá hvorugkynsorð í eintölu sem þýðir eitthvað eins og herbergi eða kassi með týndum hlutum. Er það pælingin? Mér líður eins og það sé komin einhver aftenging hjá þessu fólki um hvað þetta orð þýðir og úr hvaða orðum það samanstendur,“ segir hann svo.

Skjáskot sem Ólafur birtir af skilaboðum sem ná greinilega nokkur ár aftur í timann.

Myndband Ólafs hefur vakið þó nokkra athygli, rúmlega 5 þúsund manns hafa séð það og fjölmargir skrifa ummæli við það. Einn notandi kannast við ekki ósvipaðan misskilning þar sem fólk telur miskabætur heita miskunnarbætur.

Íslenskufræðingurinn Snorri Másson hefur tekið vel í myndband Ólafs og deilir því á X með orðunum „Óvænt innsýn í ástandið á klúbbnum. Kann einhver frekari skýringu?“ Svo skrifar hann: 870-2022: Óskilamunir ☠ 2022-: Óskilamun (!?!?)“

Harðfiskur, vefstóll og vatnstígvél meðal óskilamuna

Óskilamunir virðist ekki vera sérlega gamalt í málinu og kemur samkvæmt timarit.is fyrst fyrir í tímaritinu Ísafold 3. janúar 1905. Þar er verið að auglýsa óskilamuni frá gufubátnum Reykjavík frá árinu 1904 

Meðal óskilamuna er þar kassi merktur Jóni Jónssyni, Reykjavík; poki með fiski merktur L. V. Höfnum í Reykja- vík; harðfiskbaggi merktur P. Jónssyni, Bergstaðastræti 17; ómerkt koffort; ómerkt vatnstígvél; tveir ómerktir pokar með fisk og rófum; ómerktur poki með haustull; ómerktur poki með ýmislegu í; vefstóll merktur S. J. Hrauntúni, Biskupstungum; tómir pokar; hnakkur merktur Helga Gaðmundssyni, Laufási og hnakkur merktur Jóni. 

„Munir þessir verða seldir að mánuði liðnum, ef enginn helgar sér þá fyrir þann tíma,“ segir síðan í tilkynningunni.

Eintölumyndin óskilamunur virðist svo ekki koma til sögunnar fyrr en um hálfri öld síðar í Morgunblaðinu þann 23. febrúar 1957. Hún er þó mun sjaldgæfari en fleirtölumyndin. 

Nú rúmum sextíu árum síðar virðist afleidda orðið óskilamun hafa orðið til. Það er spurning hvort það ratar einhvern tímann í blöðin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.