Menning

Verk um vináttuna frumsýnt í Gerðubergi

Leikbrúðuland frumsýnir Vináttu í Gerðubergi um helgina. Sýningin samanstendur af fjórum stuttum verkum um ýmsar hliðar vináttu.

Það eru þau Helga Steffensen, Örn Árnason, Erna Guðmarsdóttir og Aldís Davíðsdóttir sem eiga veg og vanda af sýningunni, sem samanstendur af verkunum Vökudraumur, Regnbogafiskurinn, Risinn eigingjarni og Prinsessan og froskurinn.

„Þetta er fjórða verkefnið sem Örn vinnur með okkur," sagði Helga Steffensen, ein upphafskvenna Leikbrúðulands. Örn skrifaði handritið að verkinu ásamt Leikbrúðulandi og leikstýrir jafnframt sýningunni. Leikbrúðuland á fjörutíu ára starfsafmæli á næsta ári, en hópurinn sem kemur að sýningum þess er nokkuð breytilegur. „Ég, Erna, Bryndís Gunnarsdóttir og Hallveig Thorlacius erum upphafsmanneskjurnar og unnum saman í mörg ár. Undanfarið höfum Erna og ég búið til brúður og handrit, en við fáum svo alltaf einhvern annan með okkur," útskýrði Helga.

Leikbrúðuland varð til á brúðugerðarnámskeiði á vegum Sjónvarpsins og Myndlista- og Handíðaskólans árið 1968. „Við sýndum fyrir sjónvarpið í nokkur ár, og vorum með þjóðsögur og fleira," sagði Helga, en hún segist sækja mikið í þá ríku hefð Íslendinga. Fimm árum síðar stóð Leikbrúðuland í fyrsta skipti fyrir sýningu í kjallaranum á Fríkirkjuvegi 11, þar sem það hafði aðsetur í mörg ár. „Við sýndum alltaf klukkan þrjú á sunnudögum yfir veturinn," sagði Helga. „Síðan við misstum það húsnæði höfum svo sýnt í leikskólum og bara hvar sem við erum pantaðar á veturna," bætti hún við.

Brúðuleikritið Vinátta er ferðasýning og verður sýnt í leikskólum, grunnskólum, kirkjum og samkomuhúsum í Reykjavík og út um landið.

Forsýningin á verkinu fer fram í Gerðubergi klukkan tvö í dag, og frumsýningin sólarhring síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×