Menning

Bera saman bækur

Tilkynnt verður um verðlaunahafa bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs næstkomandi mánudag. Verðlaunin eru veitt árlega fyrir fagurbókmenntir sem skrifaðar eru á einu af norrænu tungumálunum. Til greina koma skáldsögur, leikrit, ljóða-, smásagna- eða ritgerðasöfn og önnur bókmenntaverk.

Markmið verðlaunaveitingarinnar er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og tungumáli nágrannalandanna og á sameiginlegri menningararfleifð Norðurlanda en verðlaunaupphæðin nemur 350 þúsundum danskra króna.

Skáldsögurnar Rokland eftir Hallgrím Helgason og Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson eru tilnefndar til verðlaunanna fyrir Íslands hönd í ár.

Í fyrra hlaut sænski rithöfundurinn Göran Sonnevi verðlaunin en árið á undan hlaut Sjón verðlaunin fyrir bók sína Skugga-Baldur. Aðrir íslenskir höfundar sem hlotið hafa þennan heiður eru Einar Már Guðmundsson, Fríða Á. Sigurðardóttir, Thor Vilhjálmsson, Snorri Hjartarson og Ólafur Jóhann Sigurðsson.

Á morgun verður haldið málþing um norrænar samtímabókmenntir í Þjóðarbókhlöðunnni þar sem meðlimir dómnefndar verðlaunanna munu fjalla um helstu strauma í norrænum bókmenntum um þessar mundir. Soffía Auður Birgisdóttir, formaður dómnefndar, setur málþingið en þátttakendur koma víða að frá Norðurlöndunum og hafa sérþekkingu á bókmenntum heimalands síns. Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur mun ræða um íslenskar bókmenntir. Að erindunum loknum mun Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson fundarstjóri vera með samantekt.

Samkomuhaldið er forvitnilegt, ekki síst í ljósi þess að það er samfara dómnefndarstörfum – þessa helgi verða nefndarmenn að komast að niðurstöðu um hver fær verðlaunin. Íslenskir höfundar hafa lýst því að tilnefningin ein og sér í fyrsta skipti sé því líkust að fá högg í magann. Heldur er ólíklegt að þeir Hallgrímur og Jón fái verðlaunin í ár. Hefur reglan virst vera sú að þau gangi milli þjóðanna. En allt er einu sinni fyrst.

Dagskráin í Þjóðarbókhlöðunni hefst kl. 14 á morgun. Framsögur eru á norrænum tungumálum, aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.