Viðskipti innlent

Handan járntjaldsins

Félag Jóns Helga Guðmundssonar Norvik hefur fjárfest í Rússlandi og Eystrasaltsríkjunum frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar.
Félag Jóns Helga Guðmundssonar Norvik hefur fjárfest í Rússlandi og Eystrasaltsríkjunum frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar.

Nokkur íslensk fyrirtæki námu land í Eystrasaltsríkjunum í kjölfar sjálfstæðis þeirra frá Rússlandi árið 1991 og hafa komið sér þar ágætlega fyrir.

Fleiri hafa svo bæst í hópinn síðustu ár, svo sem MP Fjárfestingabanki og Penninn. Nokkur fyrirtækjanna hafa nú þegar, eða stefna að, frekara landnám í austurvegi.

Nordic Partners hóf fjárfestingar í Lettlandi árið 1997 og er nú umsvifamesta íslenska fyrirtækið í Eystrasaltslöndunum og Póllandi með á bilinu sjö til átta þúsund starfsmenn. Líkt og fram kom í viðtali við Gísla Reynisson, forstjóra Nordic Partners, í Markaðnum fyrir nokkru, þá sá hann mikla möguleika í löndum við Eystrasalt, ekki síst hjá fólkinu sem kappkostaði að koma sér undan klafa Rússlandsáranna. Fyrirtækið er nú að hugsa sér til hreyfings og hefur fjárfest lítillega í öðru fyrrverandi austantjaldsríki. Ekki hefur fengist gefið upp hvaða land það er.

Jón Helgi Guðmundsson, kenndur við Byko, hefur lengi átt í viðskiptum í Eystrasaltsríkjunum og í Rússlandi, og hóf beinar fjárfestingar þar um 1992. Félag hans, Norvik, hefur aðallega fjárfest í timburvinnslu í Lettlandi og Eistlandi en á að auki verksmiðjur í Bretlandi. Þá rekur félagið Norvik Bank í Lettlandi, sem á systurfyrirtæki í Armeníu og útibú í Moskvu.

Erlendir starfsmenn fyrirtækisins eru 2.500 talsins, þar af 1.800 í Lettlandi og 500 í Rússlandi. Líkt og fleiri íslensk félög horfir Norvik til landnáms í fleiri fyrrverandi austantjaldslöndum, svo sem í Úkraínu. Fleiri fyrirtæki hafa komið sér þar fyrir, til dæmis MP Fjárfestingabanki, og má gera ráð fyrir að þeim fjölgi á næstu árum.

Jón Helgi hafði um árabil átt í viðskiptum við Sovétríkin í gegnum Byko. Þegar þau liðu undir lok í enda árs 1991 varð hann að leita nýrra tækifæra í Eystrasaltsríkjunum. Það lagði grunninn að fjárfestingum Norvik þar: „Við töldum mjög líklegt að tækifærin myndu gefast í þessu umhverfi," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×