Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóður nýtist helst fjáðum

Magnús Árni Skúlason segir Íbúðalánasjóð ekki sinna félagslegu hlutverki sínu.
Magnús Árni Skúlason segir Íbúðalánasjóð ekki sinna félagslegu hlutverki sínu.

Íbúðalánasjóður sinnir ekki hlutverki félagslegs sjóðs fyrir þá sem eru að kaupa í fyrsta sinn á höfuðborgarsvæðinu. Þvert á móti nýtist hann helst fólki sem á mikið eigið fé til húsnæðiskaupa.

Þetta er meðal þeirra fullyrðinga sem Magnús Árni Skúlason, framkvæmdastjóri og eigandi ráðgjafafyrirtækisins Reykjavík Economics, mun færa rök fyrir í hádegisfyrirlestri í Háskóla Íslands í dag.

Í fyrirlestri sínum mun Magnús fjalla um formgerð íslenska íbúðalánakerfisins og hvernig markaðurinn hefur þróast frá því að bankarnir hófu innreið sína á markaðinn í samkeppni við Íbúðalánasjóð árið 2004.

Magnús mun meðal annars fara yfir framboð nýbygginga og þær lýðfræðilegu breytingar sem áttu sér stað hér á landi og komu í veg fyrir að fasteignaverð féll, eins og það hefði í raun átt að gera. „Árið 2004 voru þrjú þúsund íbúðir í byggingu og allt stefndi í offramboð. Það varð hins vegar ekki því það komu svo margir innflytjendur inn á höfuð­borgarsvæðið en ekki einungis á Austurland, eins og alltaf var talað um," segir Magnús.

Fyrirlestur Magnúsar byggir á erindi sem hann flutti fyrir alþjóðleg samtök veðlánahafa í Evrópu (European Mortage Federation) í vor. Hann hefst klukkan 12.15 í sal 101 í Odda og er öllum opinn. - hhs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×