Tónlist

Nick Cave: Grinderman - fjórar stjörnur

Nick Cave og félagar hans úr The Bad Seeds stofnuðu þessa sveit, Grinderman, og sömdu efni á heila plötu í sameiningu. Útkoman er eitursvöl og 
hispurslausari en þær plötur sem Cave hefur sent frá sér upp á síðkastið.
Nick Cave og félagar hans úr The Bad Seeds stofnuðu þessa sveit, Grinderman, og sömdu efni á heila plötu í sameiningu. Útkoman er eitursvöl og hispurslausari en þær plötur sem Cave hefur sent frá sér upp á síðkastið.

Þó svo að Nick Cave hafi stofnað hljómsveitina Grinderman með þremur liðsmönnum sinnar eigin undirleikssveitar The Bad Seeds hljómar þessi plata nú bara samt eins og viðbót í lagasafn meistarans.

Hljóðheimurinn er ekki fjarri því sem hann var að dunda sér við á fyrstu og annarri breiðskífu sinni From Her to Eternity og The Firstborn is Dead. Því ætti ekki að búast við því að Grinderman bjóði upp á nýtt sjónarhorn á Cave. Þetta er mun frekar ánægjulegt afturhvarf, eins og hann sé að horfa aðeins um öxl og sjá hversu miklu hann hefur áorkað.

Munurinn er þannig í nálguninni en ekki útkomunni, því í Grinderman semja allir liðsmenn sveitarinnar saman. Eftir mörg ár í þjónustu Caves fá þeir Martyn P. Casey, Warren Ellis og Jim Sclavunos því loksins uppreisn æru og mega spila nákvæmlega það sem þeir vilja. Hlutverk Caves snýst því aðallega um að finna upp á góðum sönglínum og textum.

Svo berstrípað hlutverk hefur hann ekki tekið að sér síðan hann var í Birthday Party. Fyrir vikið verður útkoman þónokkuð hispurslausari en þær plötur sem Cave hefur verið að gefa frá sér síðustu árin. Svo spilar hann líka á gítar í nokkrum lögum, en ég held að hann hafi ekki gert það áður á plötum sínum.

 

Nick Cave Stendur undir nafni með Grinderman.

Fyrsta fórnarlamb þessarar nýju nálgunar er píanóið. Það heyrist aldrei í píanói á plötunni, ekki nema að þið teljið Rhodes-píanóið með, og lítið sem ekkert pláss er fyrir ballöður. Það er bara í laginu Man in the Moon sem Cave fær örlítið að dæla úr sínu rómantíska hjarta. Warren Ellis spilar heldur yfirleitt ekki á opna fiðluna, heldur keyrir hana í gegnum þvílíka hljóðblöndunarsúpu að það væri auðvelt að trúa því að þetta væri aragrúi af gíturum eða hljóðgervill.

Þetta er mjög töffaraleg tónlist út í gegn. Kannski sú svalasta sem Cave og félagar hans hafa tekist á við í þónokkurn tíma. Hún er afar kúrekaleg og það er langt síðan Cave hefur stigið þetta langt inn í eyðimörkina. Cave leyfir sér líka að vera ruddalegur í textasmíðum. Eitt lagið heitir til að mynda No Pussy Blues og ég efast ekki um að þið getið giskað á um hvað textinn fjallar.

Hér eru nokkur lög sem gætu orðið klassísk. Lög eins og I Don"t Need You (To Set Me Free) og When My Love Comes Down. Ekki búast við því að Nick Cave sé að enduruppgötva sig með nýju sveitinni sinni Grinderman. Þið getið hins vegar leyft ykkur að búast við hörkuplötu, því ég efast um að þið getið orðið fyrir vonbrigðum.

Birgir Örn Steinarsson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×