Menning

Könnun kerfanna

Geirþrúðar Finnbogadóttur Hjörvar  Úr verkinu „Hegel on Schelling’s Absolute: The Fog In Which All Rabbits Are White” sem listamaðurinn setti upp í Nýlistasafninu í tilefni af grasrótarhátíðinni Sequences í fyrra.
Geirþrúðar Finnbogadóttur Hjörvar Úr verkinu „Hegel on Schelling’s Absolute: The Fog In Which All Rabbits Are White” sem listamaðurinn setti upp í Nýlistasafninu í tilefni af grasrótarhátíðinni Sequences í fyrra.

Sýningarröð Listasafns Reykjavíkur sem kennd er við D-2 hefur vakið verðskuldaða athygli en markmið hennar er að vekja athygli á efnilegum listamönnum sem ekki hafa sýnt í hinum stærri sýningarsölum landsins og vera þeim hvatning. Síðdegis í dag verður opnuð sýning í D-salnum þar sem Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar veltir fyrir sér mannlegri tilvist og þeim kröftum sem knýr manninn áfram.

Í verkinu endurspeglast togstreita tilverunnar sem birtist annars vegar í taktföstum og seiðandi hljóðverkum og hins vegar í fremur óviðfelldu skerandi ljósi sem blikkar stöðugt og verður þannig í senn ágengt og fráhrindandi.

Geirþrúður segist hafa að mestu einbeitt sér að innsetningum en með verki sínu nú leitist hún við að skoða samskipti stofnana og áhorfenda. „Sýningarandrúmsloftið á Íslandi hefur litast af því að listastofnanir vilja tengjast áhorfendum meira, en fólk ætti ávallt að vera meðvitað um undirliggjandi kerfi, til dæmis þarf myndlistarfólk að huga að því hvaða stofnun það gengur inn í,“ útskýrir Geirþrúður.

Verkið vísar til hins óbrúanlega bils sem jafnan er milli framsetningarinnar og upplifunar áhorfandans en það bil segir Geirþrúður tengjast öllum miðlum. „Það er til dæmis ákveðin blekking að lifa sig inn í hluti – til dæmis þegar fólk heldur að persónur úr sjónvarpsþáttum séu vinir þeirra.“ Markmið Geirþrúðar er að vinna markvisst með þessi kerfi og vekja þannig athygli á þeim fremur en að brjóta þau upp.

Geirþrúður lauk námi frá Listaháskóla Íslands árið 2002 og síðan framhaldsnámi við Listaháskólann í Malmö. Hún tekur um þessar mundir þátt í tveggja ára alþjóðlegu verkefni á vegum Rikjs­akademie van Beeldende Kunst í Amsterdam ásamt fleiri ungum og upprennandi listamönnum.

Sýningarstjóri nú er Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir en þess má geta að nk. sunnudag kl. 15 munu Geirþrúður og Þorbjörg bjóða gestum í listamannsspjall í D-salnum. Opnunin verður í dag kl. 17.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×