Innlent

Bannað að refsa þeim sem skila ekki framtali

Skattframtölum skilað Þúsundir Íslendinga sleppa því að skila skattframtali sínu.
Skattframtölum skilað Þúsundir Íslendinga sleppa því að skila skattframtali sínu.

Umboðsmaður Alþingis segir að ekki séu nægilega skýrar forsendur fyrir því að tuttugu prósenta tekjuálag sé lagt á þá sem skila ekki skattframtali. Þetta kemur fram í áliti frá 13. júlí síðastliðnum. „Við tökum þetta auðvitað mjög alvarlega og munum fara yfir þetta,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri.



Ef skattgreiðandi skilar ekki inn skattframtali tímanlega er skattur á hann áætlaður, samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir hjá Ríkisskattstjóra.

„Þá eru teknar saman allar þær helstu upplýsingar sem menn hafa um viðkomandi, launamiðar, upplýsingar um staðgreiðslu á hugsanlegum virðisaukaskatti og aðrar upplýsingar sem kynnu að vera fyrir hendi,“ segir Skúli. „Af varfærnissjónarmiðum er áætlunin hækkuð um tuttugu prósent.“



Tæplega fimmtán þúsund skattgreiðendur skiluðu ekki inn framtali í vor, tæplega sex prósent af framteljendum.



„Verkefni skattstjóra er að ná til þessa hóps,“ segir Skúli. „Það er hægt að gera með ýmsum hætti. Þegar ekki var komið framtal frá stórum hópi í vor var sendur tölvupóstur til þeirra sem höfðu opnað framtalið sitt á netinu en ekki lokið við það. Það eru miklir hagsmunir fyrir fólk að telja fram á réttum tíma.“



Skúli segir hugmyndir uppi um að skrifa þeim bréf sem ekki hafa skilað framtali eða hafa samband við þá á annan hátt. „Við þurfum að kanna hvort hægt sé að veita betri þjónustu, það kunna að vera einstaklingsbundnar aðstæður sem valda þessu,“ segir Skúli.



 

Skúli Eggert Þórðarson

Skúli telur ekki að tekjumissir yrði af því ef hætt yrði að innheimta tuttugu prósenta álag. „Margir þeirra sem lenda í áætlun koma sér í skil eftir að álagningu lýkur. Það er tiltölulega lítill hópur sem borgar áætlunina.“

Umboðsmaður hvetur einnig til þess að Ríkisskattstjóri minni skattstjóra landsins á að þeim beri að fara sjálfir yfir hverja einustu tillögu að áætlun með það fyrir augum að meta hana eftir aðstæðum hvers landshluta.



„Það er auðvitað þeirra að áætla og þeir þurfa að fara yfir þetta betur,“ segir Skúli. „Þessum tilmælum hefur alltaf verið beint til skattstjóra og ég veit ekki annað en að þeir geri þetta.“ Í einhverjum tilvikum valdi þó tímaskortur því að treyst sé of mikið á vélrænar áætlanir, að sögn Skúla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×