Menning

Skírnir á vefnum

Halldór Guðmundsson
Halldór Guðmundsson

Hið íslenska bókmenntafélag hefur sett á stofn vefsíður fyrir sitt forna tímarit, Skírni, sem Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur ritstýrir nú um stundir: www.skirnir.is. Þar má meðal annars fylgjast með fréttum og umræðum í tengslum við efni Skírnis.

Þar verða kynnt tilboð til áskrifenda og kjör sem þeim bjóðast. Á heimasíðunni má lesa um efni Skírnis síðustu tíu árin og fletta upp í efnisskrá Skírnis 1967-2001. Birtar verða valdar greinar úr heftum síðustu ára og átta sig þar með betur á efni tímaritsins og fyrir þá sem vilja leita lengst aftur í sögu þessa merka rits er tengill á vefsíðu þar sem hægt er að lesa fyrstu níutíu árganga Skírnis. Greinar er á síðunni að finna um Hið íslenska bókmenntafélag, útgefanda Skírnis, svo og sögu tímaritsins sem er orðin 180 ára löng.

Ritstjórinn segir þetta bara fyrsta skref og þiggur allar ábendingar, svo og tillögur um efni í Skírni eða á heimasíðuna. Þess má geta að vorhefti Skírnis er væntanlegt eftir mánuð eða svo, og verður þar margt forvitnilegt lesefni, segir í frétt frá félaginu. Tímarit eru í auknum mæli að sækja inn á netið og þeir sem fylgjast með í tímaritaútgáfu í Evrópu og Bandaríkjunum og víðar þekkja kosti þessa fyrirkomulags. Vefur tímarits Máls og menningar hefur verið virkur um langt skeið og einnig er aðgangur frír að greinum í Lesbók Morgunblaðsins á mbl.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×