Innlent

Vill einföld og skýr fjármál

„Ég hef aldrei kært mig um það,“ segir Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um kreditkort ríkisins á nafni ráðherra.
„Ég hef aldrei kært mig um það,“ segir Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um kreditkort ríkisins á nafni ráðherra.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, er einn fjögurra ráðherra sem ekki hafa kreditkort ríkisins á sínu nafni. „Ég hef alla mína ráðherratíð komist af án greiðslukorts á vegum ríkisins og aldrei leitt hugann að því að óska eftir slíku korti,“ segir hann.

Athygli vekur að iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur ekki kreditkort þó að fyrirrennarar hans hafi haft það. „Ég hef aldrei kært mig um það. Ég vil hafa öll fjármál einföld og skýr og hef ekki haft neina þörf fyrir annað kort. Ég er gamall og íhaldsmaður í peningamálum. Þegar ég hef lagt út í kostnað sem ráðuneytið hefur átt að borga hef ég lagt út fyrir því og rukkað ráðuneytið.

Það ruglar bara að hafa tvö kredit­kort og maður lendir í vandræðum,“ segir Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Guðmundur B. Helgason, ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, segir að ráðuneytið borgi ekki dagpeninga vegna ferðalaga innanlands heldur bara kostnað. Þess vegna séu ráðherra og nokkrir embættismenn með kreditkort til einföldunar.

„Þessum kortum er alls ekki ætlað að vera til persónulegra innkaupa og það hefur ekkert slíkt komið upp hjá okkur. Ef um slíkt væri að ræða geri ég fastlega ráð fyrir því að Ríkis­endurskoðun myndi láta til sín taka. Það hafa engin slík tilvik komið upp,“ segir Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×