Penninn hefur keypt allt hlutafé í rekstrarvörukeðjunni Daily Service sem starfar í Eistlandi, Lettlandi og Litháen.
Penninn hefur verið að sækja inn á markaði í kringum Eystrasalt. Stjórnendur Pennans hafa lýst því yfir að þar muni félagið vaxa áfram enda tækifærin mikil.
Í síðustu viku tilkynnti Penninn einnig um kaup á lettneska kaffiframleiðandanum Melna Kafija í samstarfi við Te&kaffi. Penninn hefur fylgt þeirri hugmyndafræði að samlegðaráhrif séu í þjónustu við skrifstofuna annars vegar og kaffistofuna hins vegar. Fyrirtækið á meðal annars þrjátíu prósenta hlut í Te&kaffi.
Þá var í mars tilkynnt um kaup á finnska fyrirtækinu Tamore sem er sérhæft í sölu og dreifingu á skrifstofuvörum. Ársvelta Daily Service nemur tveimur milljörðum króna og fyrirtækið hefur 320 starfsmenn á sínum snærum.
Penninn í útrás í Eystrasalti
