Menning

Mælt með stofnun Flugminjasafns Íslands

Tíska og aðbúnaður flugfreyja- og þjóna hefur breyst töluvert frá því að þessi mynd var tekin.
Tíska og aðbúnaður flugfreyja- og þjóna hefur breyst töluvert frá því að þessi mynd var tekin.

Fyrir rúmu ári skipaði menntamálaráðherra nefnd til að kanna stöðu flugminjasafna á landinu. Nefndinni var falið að sinna eftirfarandi verkefnum sérstaklega:

Kanna hvaða heimildir eru til um íslenska flugsögu og hvaða skráning hefur farið fram á íslenskum flugminjum. Safna saman upplýsingum um þær flugminjar s.s. flugvélar, flök flugvéla, flugvallarbúnað, ljósmyndir, kvikmyndir og aðrar minjar sem nýtast myndu við stofnun safns af þessum toga.

Hún skyldi kanna þau söfn sem nú þegar eru í rekstri: Flugminjasafn Íslands á Akureyri og Flugminjasafnið á Hnjóti og koma með tillögur um hvernig megi samræma þennan rekstur, hvaða rekstrar­form myndi henta slíku flugminjasafni og hvaða aðilar gætu komið að rekstrinum. Hvaða kostir eru í staðsetningu, ekki síst með tilliti til þeirra safna sem þegar eru starfrækt. Nefndin hefur nú skilað áliti og er það að finna á vef ráðuneytisins.

Nefndin telur mikil­vægi flugminjasafns á Íslandi ljóst, sér í lagi þar sem flugsaga er stór þáttur í menningu landsins, en upphaf flugsamgangna markaði tímamót hér á landi hvað varðar samskipti við aðrar þjóðir. Nefndin leggur til að stofnað verði Flugminjasafn Íslands sem samnefnari sjálfstæðra flugsafna á Íslandi með sameiginlegri stofnskrá sem tryggi samstarf, yfirsýn og heildarstefnumótun. Flugsafnið á Akureyri er að mati nefndarinnar eina safnið sem uppfyllir sem stendur skilyrði sem aðildarsafn að Flugminjasafni Íslands.

Önnur söfn gætu síðar einnig orðið aðilar, svo sem fyrirhuguð flugsöfn í Reykjavík og á Suðurnesjum. Vekur athygli að safnið á Hnjóti er ekki talið með í tillögum nefndarinnar og hljóta það að vera vonbrigði Vestfirðingum en safnið á Hnjóti hefur verið nokkurt aðdráttarafl ferðamönnum. Einnig verði formlegt samstarf við önnur söfn, fyrir­tæki og félög sem sinna flugsögunni með einum eða öðrum hætti. Fyrirmynd að þessu er stofnun samtaka sjóminjasafna á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×