Menning

Listasetur Steinunnar opnað um hvítasunnu

Steinunn hyggst bjóða nánum vinum og fjölskyldu að berja nýja listasetrið á Hofsósi augum.
Steinunn hyggst bjóða nánum vinum og fjölskyldu að berja nýja listasetrið á Hofsósi augum.

Athafnakonan Steinunn Jónsdóttir hyggst bjóða nánustu fjölskyldu og vinum til Skagafjarðar á einkaopnun listasetursins á Hofsósi um hvítasunnuhelgina en starfsemi þess kemst bráðum á fullt skrið.

Um er að ræða glæsilega aðstöðu fyrir listamenn sem vilja komast í tæri við ósnortna náttúru sveitarinnar og njóta kyrrðarinnnar. Listasetrið er gamall sveitabær sem Steinunn festi kaup á og ef marka má heimasíðu staðarins, baer.is, verða þar fimm fjörutíu fermetra stúdíóíbúðir, hver með sínu baðherbergi, vinnustofu og svefnherbergi. Jafnframt verður þarna glæsilegur sýningarsalur, fundarherbergi og matstofa þar sem listamenn geta komið og snætt saman.

Steinunn hefur lítið viljað tjá sig um þetta verkefni við fjölmiðla og þegar Fréttablaðið hafði samband við Áskel Heiðar Ásgeirsson, hjá sveitarfélagi Skagafjarðar, gat hann lítið sagt til um hvers konar starfsemi yrði þarna rekin. „Þetta er hins vegar mikil lyftistöng fyrir menningarlífið í sveitinni og við fögnum auðvitað öllu svona frumkvæði,“ sagði Áskell.

Steinunn hefur því látið mikið til sín taka á Hofsósi og nærsveitum að undanförnu. Ekki er langt síðan tilkynnt var að hún og Lilja Pálmadóttir, eiginkona Baltasars Kormáks, hefðu gefið vilyrði fyrir því að gefa bænum glæsilega sundlaug. Sú er nú á teikniborðinu og er þess skemmst að bíða að leitað verði tilboða í byggingu hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×