Menning

Einstakir hljóðskúlptúrar og nýr hljóðheimur

Nýr hljóðheimur og heimspekilegar vangaveltur um jarðneskt líf Ríkharður H. Friðriksson, Kirsten Galm, Egill Ólafsson og Gunnar Kristinsson leika á Listahátíð.
Nýr hljóðheimur og heimspekilegar vangaveltur um jarðneskt líf Ríkharður H. Friðriksson, Kirsten Galm, Egill Ólafsson og Gunnar Kristinsson leika á Listahátíð.

Það er engin leið að lýsa því sem tónleikagestir eiga von á í Hallgrímskirkju í kvöld. Þar sameinast kraftar tveggja af voldugustu hljóðfærum landsins, Klais-orgelsins og slagverkssafns Gunnars Kristinssonar, að viðbættum raddböndum Egils Ólafssonar og annarlegum gítartónum.

Tónleikar Icelandic Sound Company eru liður í Listahátíð í Reykjavík en dúóið Gunnar Kristinsson slagverksleikari og Ríkharður H. Friðriksson gítarleikari hefur að þessu sinni fengið til liðs við sig listamanninn Egil Ólafsson og orgelleikarann Kirsten Galm.

Tónlist sveitarinnar, sem starfað hefur um nokkra hríð en aldrei leikið í Reykjavík áður, einkennist af frjálsum spuna en í tilefni staðsetningarinnar verður músíkin formfastari en áður því að á tónleikunum verður lagt út af messuforminu.

Magna hljómbrigðin„Þetta er óvenjuleg hljóðfæraskipan, óvenjuleg staðsetning, óvenjuleg músík og óvenjulegur texti,“ útskýrir Egill Ólafsson kíminn. „Ég held að ég geti fullyrt að þessi hljóðfæraskipan sé einsdæmi, og þetta er miklu meira en bara slagverk, gítar, söngur og orgel.“ Sérstaða ISC felst ekki síst í notkun á tölvum og hljóðbreytitækjum sem galdra og magna öll þau hljómbrigði sem kunnáttumenn geta framkallað úr hljóðfærunum. Þannig eru upphaflegir möguleikar hljóðfæranna notaðir til fulls en verða um leið stökkpallur fyrir frekari vinnslu.

Slagverkssafn Gunnars er víðfrægt og líklega einstætt á heimsvísu, því þar er áherslan lögð á gong og tam-tam hljóðfæri sem skipta mörgum tugum. Hann hefur leikið á ásláttarsafn sitt á tónleikum vítt og breitt um Evrópu en síðast heyrðist í því í Reykjavík fyrir aldarfjórðungi og nú hefur það líka stækkað til muna. „Það er heldur ekki rétt og sanngjarnt að tala bara um gítar þegar Ríkharður á í hlut,“ áréttar Egill því víst er að þar er enginn hefðbundinn strengjasláttur á ferð .

Íslendingarnir þrír hafa allir verið viðloðandi músík um árabil. Gunnar er búsettur í Sviss og þar hefur sveitin haft sitt varnarþing en Gunnar starfar þar jöfnum höndum við tónlist og myndlist. Ríkharður hóf feril sinn í rokkinu en lærði síðar tónsmíðar. Hann kennir einnig tölvutónlist við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskóla Kópavogs.

Orgelleikarann fengu þeir félagar úr kantorsstól Universitäts­kirche í Freiburg í Þýskalandi. Egill og Kirsten Glam komu fram á tónleikum með ISC þar í borg í fyrra og vöktu mikla lukku og fyrir dyrum stendur að sá fyrrnefndi komi á ný fram með þeim á kirkjulistahátíð í haust. Á veraldlegum nótumEgill segir að tónlistin sé spuni í grunninn og hópurinn hefur líkt verkefninu við eins konar hljóðskúlptúra. „Við styðjumst við messuformið en erum á veraldlegum nótum í textunum; þeir eru byggðir upp á svipaðan hátt og hefðbundinn messutexti,“ segir hann og vísar til yfirskrifta messuhlutanna eins og iðrunar, játningar og fyrirgefningar. Egill hefur skrifað út lagboða og samið nýjan texta fyrir þessa tónleika en framlag hinna verður spunakenndara. Textinn felur í sér heimspekilegar vangaveltur um vort jarðneska líf en blandast síðan hljóðmyndum sveitarinnar og stemningu hússins. Hlustað með opnum hugaEgill segir að þeir verði djarfir við að blanda saman stíltegundum á tónleikunum. „Menn munu heyra tónlist með nýjum formerkjum og alveg tónal-músík í dúr og moll. Eitt sinn var mikill ótti við að blanda þessu of mikið saman en við erum óhræddir við það enda held ég að í seinni tíð sé formið farið að skipta minna máli en útkoman,“ segir hann.

Hallgrímskirkja er verðugur vettvangur fyrir þessa nýsköpun listamannanna. „Þetta er líka alveg makalaust hljóðfæri, þetta orgel,“ segir Egill sannfærandi þegar talið berst að staðsetningunni. „Tónlistin mun síðan bara flæða um Skólavörðuholtið. Ég held að fólk ætti bara að mæta með opnum huga og taka á móti nýjum hljóðheimi – þetta verður vissulega hljóðheimur sem menn heyra ekki á hverjum degi,“ segir Egill að lokum.

Aðeins einir tónleikar eru fyrirhugaðir að þessu sinni og hefjast þeir í Hallgrímskirkju kl. 20 í kvöld. Hægt er að nálgast aðgöngumiða á heimasíðu Listahátíðar en nánari upplýsingar og tóndæmi með sveitinni má finna á heimasíðu hennar www.isc.is.

kristrun@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×