Menning

Verk Svavars á uppboðum

Olíumynd eftir Svavar Guðnason frá 1949.
Olíumynd eftir Svavar Guðnason frá 1949.

Bæði stóru uppboðshúsin, Sothebys og Christies, auglýstu snemma í vor uppboð sem helguð væru myndlist og listmunum frá Skandinavíu. Á uppboði Christies hinn 26. júní er til kaups stórt olíumálverk eftir Svavar Guðnason frá 1949.

Myndin er ótitluð og merkt að aftan en hún er 75x88 sentimetrar að stærð. Verkið er metið á 1.850-2.500 þúsund króna.

Fyrr í þessum mánuði var tilkynnt hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn að hinn 6. júní væru til kaups á annan tug smámynda eftir Svavar úr eigu Roberts Dahlman-Jensen, arkitekts og fyrrum útgáfustjóra Helhesten í Danmörku.

Verð á verkum Svavars er að hækka á ný en óhug sló á kaupendur eftir að efasemdir komu upp um fjölda verka sem boðin voru á markaði hér og í Danmörku sem mörg eru sögð fölsuð.

Í undirbúningi er stórbók um feril Svavars í ritröð sem þegar geymir stórt og mikilvægt rit um Kjarval og Mikines. Sýning Listasafns Íslands í samvinnu við norræn söfn á verkum CoBrA-málaranna sýnir að mikilvægt er að hafin verði vinna við ítarlega skráningu á verkum Svavars Guðnasonar eins og tíðkast um stærri málara.

Uppboðið hjá Christies er sem fyrr segir hinn 26. júní og er aðgengilegt á vef fyrir þá sem áhuga hafa á málverkinu frá 1949 sem mun vera gjöf listamannsins til foreldra fyrrum eigenda en það eru afkomendur hans sem vilja selja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.