Menning

Innréttingarnar lifna við

Sigríðar Ágústsdóttur Sýningaraðstaða og verslun verður opnuð í Aðalstræti 10 í dag.
Sigríðar Ágústsdóttur Sýningaraðstaða og verslun verður opnuð í Aðalstræti 10 í dag.

Formleg opnun á starfsemi í nýendurbyggðu Húsi Innréttinganna og viðbyggingu í Aðalstræti 10 verður kl. 17 í dag en í gamla húsinu á neðri hæðinni verður Reykjavíkurborg með sýningu í Fógetastofum.

Þar verður í sumar sýning á vegum Minjasafns Reykjavíkur um upphaf byggðar við Aðalstræti og í Grjótaþorpi. Til sýnis eru líkön og ljósmyndir frá Reykjavík þar sem sjá má hvernig byggð í Reykjavík þróaðist fyrstu hundrað árin eftir stofnun kaupstaðarins árið 1786. Upphaf þéttbýlis í Reykjavík má rekja til Innréttinganna og húsið Aðalstræti 10 stendur eitt eftir af þeim húsum sem reist voru fyrir verksmiðjurnar.

Á efri hæðinni er starfsemi Handverks og hönnunar en markmið þess félagsskapar er að stuðla að eflingu handverks, hönnunar og listiðnaðar og auka gæðavitund á þessu sviði. Einnig að auka skilning almennt á menningarlegu, listrænu og hagnýtu gildi handverks, hönnunar og listiðnaðar með fjölbreyttri kynningarstarfsemi. Á efri hæðinni er einnig lítill sýningarsalur sem kallaður er „Á skörinni“.

Þar mun Sigríður Ágústsdóttir leirlistakona opna sýningu á handmótuðum og reykbrenndum vösum. Sigríður býr á Akureyri en lærði bæði í Englandi og Frakklandi. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í mörgum samsýningum. Sýningin „Á skörinni“ er opin á skrifstofutíma til 28. júní.

Í glæsilegu bakhúsi sem er á tveimur hæðum er rekin verslunin Kraum – icelandic design. Hópur hönnuða og fjárfesta tók höndum saman og stofnaði þetta fyrirtæki. Í versluninni verður seldur fatnaður, skartgripir og margs konar nytjavörur frá yfir sjötíu íslenskum hönnuðum.

Á efri hæð bakhússins verða í framtíðinni fjölbreyttar innlendar og erlendar hönnunarsýningar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×