Innlent

Hótaði burðardýri misnotkun sonarins

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. MYND/ÞÖK

Karlmaður á þrítugsaldri var dæmdur í þriggja ára og átta mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í dag fyrir innflutning á tæplega þremur kílóum af kókaíni.

Manninum var hótað að færi hann ekki sem burðardýr frá Danmörku myndi barnaníðingur misnota son hans. Fíkniefnahundur merkti ferðatösku hans og fundu tollverðir efnin falin milli klæðninga í ferðatöskunni þegar hann kom frá Kaupmannahöfn 21. nóvember 2006.

Maðurinn játaði fyrir dómi að hafa flutt efnin til landsins, en bar því við að hann hefði verið þvingaður í ferðina vegna fíkniefnaskuldar upp á eina milljón króna. Honum hefði verið misþyrmt í nokkur skipti og hótað frekara ofbeldi, auk þess sem lánadrottnarnir sögðust mundu siga barnaníðingi á son hans. Þá samþykkti maðurinn að sækja efnin til Kaupmannahafnar í þeirri trú að skuldin yrði felld niður og sonur hans og fjölskylda myndu ekki lenda í vanda.

Ákærði sagði að ferðin hafi verið skipulögð af mönnum hér á landi sem hann vill ekki nafngreina af ótta við hefndaraðgerðir gegn sér og fjölskyldu sinni.

Auk fangelsisvistarinnar var maðurinn dæmdur til að greiða sakarkostnað og laun verjanda síns upp á rúmlega sjö hundruð þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×