Viðskipti innlent

Verðlaun úr hendi Pútíns

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, afhenti í gær Þorsteini Inga Sigfússyni Alheimsorku­verðlaunin við hátíðlega athöfn í Pétursborg Rússlands.

Þorsteinn hlýtur verðlaunin fyrir framúrskarandi árangur við rannsóknir á sviði orkumála, sérstaklega hvað viðkemur endur­nýjan­legri orku, en hann hefur verið leiðandi í vetnisrannsóknum hér á landi svo árum skiptir.

Í þakkarávarpi Þorsteins kvaðst hann „standa á öxlum risa“ á sínu fræðasviði og vísaði þar til íslenskra frumherja í orkumálum.

„Framleiðsla og notkun vetnis sem orkubera á Íslandi getur orðið fyrirmynd fyrir heiminn,“ sagði Þorsteinn í ræðu sinni. „Framlag mitt, og miklu frekar míns lands, til þess að draga úr kolefnismengun hefur verið að taka í notkun æ stærra hlutfall endurnýjanlegra orkulinda landsins,“ sagði hann og benti á að Ísland ætti nú þegar heimsmet í hlutfalli endurnýjanlegrar orku, eða 72 prósent.

Einnig minntist hann rússneskra frumkvöðla sem margir hverjir hefðu haft mótandi áhrif á feril Þorsteins. Þá þakkaði hann Háskóla Íslands og Íslenskri NýOrku fyrir að hafa veitt sér tækifæri til dáða. Síðast en ekki síst þakkaði Þorsteinn ungum vísindamönnum og nemendum sínum í Háskóla Íslands í gegnum árin.

Í Rússlandi er Alheimsorkuverðlaununum líkt við Nóbelsverðlaunin, en Þorsteinn var valinn úr hópi 146 manna. Verðlaunaféð er tíu milljónir rúblna, um 27 milljónir króna.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Benedikt Ásgeirsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, voru við athöfnina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×