Menning

Skemmtilegt tjáningarform

Ævintýri Björgólfs, Rannveigar, Hreiðars Más og Bjarna í fiskvinnslustöð Sigvalda eru fjölbreytt og margslungin.
Ævintýri Björgólfs, Rannveigar, Hreiðars Más og Bjarna í fiskvinnslustöð Sigvalda eru fjölbreytt og margslungin.

Líf og fjör í fiskvinnslu Sigvalda er heitið á nýrri teiknimyndasögu eftir Dr. Gunna, sem birtast mun í fyrsta eintaki tímaritsins Rafskinnu.

„Ég var beðinn um að gera eitthvað fyrir þetta blað og mig langaði einfaldlega mest að gera teiknimyndasögu,“ segir Gunni, aðspurður um aðdraganda verkefnisins. „Myndasögur eru ákveðið tjáningarform sem er skemmtilegt. Ég hafði mjög gaman að því að setja þetta fólk í samhengi,“ segir Dr. Gunni en sagan er stutt og hnitmiðuð og nær yfir átta ramma.

Áldrottningin Rannveig Rist og bankamennirnir Hreiðar Már Sigurðsson, Bjarni Ármannsson og Björgólfur Guðmundsson eru í aðalhlutverkum í sögunni og birtast höfuð þeirra útklippt á teikningunum. Að auki kemur við sögu „ónefndur vaktstjóri“ eins og Gunni kallar hann. Þá er Dr. Gunni mjög ánægður með fiskvinnslunetið sem hann hefur sett á höfuð aðalpersónanna.

„Ég er snillingur í Photoshop,“ segir hann og hlær.

Teiknimyndasagan um fiskvinnslu Sigvalda er ekki sú fyrsta sem Dr. Gunni gerir. Hann var duglegur að framleiða slíkar sögur fyrir tímaritið Gisp sem kom fyrst út í upphafi níunda áratugarins.

 

Dr. Gunni Hefur dundað sér við að gera teiknimyndasögur í gegnum tíðina og segir þær vera skemmtilegt tjáningarform.

„Ég var gríðarlega mikill áhugamaður um teiknimyndasögur á þeim tíma og keypti mikið magn af teiknimyndasögum. Síðan þá hefur áhuginn smám saman minnkað,“ útskýrir Dr. Gunni og bætir við að hann fylgist nánast eingöngu með tveimur höfundum í dag, þeim Hugleiki Dagssyni og Bandaríkjamanninum Daniel Clowes. Svo vill til að Hugleikur verður einnig með teiknimyndasögu í Rafskinnu. „Það er ánægjulegt að fá pláss við hliðina á honum. Hugleikur er snillingur,“ segir Gunni.

Teiknimyndasagan mun birtast í fyrsta eintaki lista- og menningartímaritsins Rafskinnu sem væntanlegt er í verslanir síðar í þessum mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×