Viðskipti innlent

Nefndin aðhefst ekkert í 365

Baugur er stærsti hluthafinn í 365.
Yfirtökunefnd fékk gögn um viðskipti Baugs og Landsbankans í 365.
Baugur er stærsti hluthafinn í 365. Yfirtökunefnd fékk gögn um viðskipti Baugs og Landsbankans í 365.

Yfirtökunefnd hyggst ekkert aðhafast vegna viðskipta Baugs Group á hlutabréfum í 365 hf., útgáfufélagi Fréttablaðsins. „Ég á ekki von á því að við teljum að það þurfi að athuga þetta sérstaklega miðað við þær upplýsingar sem við fengum fyrir og um það leyti sem kaupin voru gerð," segir Viðar Már Matthíasson, formaður nefndarinnar.

Baugur, sem átti 31,8 prósenta hlut í 365, keypti 6,6 prósent til viðbótar fyrir 980 milljónir króna og átti þá alls 38,4 prósent í félaginu, sem er nálægt fjörutíu prósenta yfirtöku­mörkum. Jafnframt á Baugur fimmtungshlut í FL Group sem er meðal stærstu hluthafa í 365. Baugur seldi umrædd bréf til Landsbankans en gerði jafnframt afleiðusamning við bankann þar sem að Baugur græðir eða tapar til samræmis við gengisþróun bréfa í 365.

Viðar telur forsenduna að Landsbankinn sé eins og hver annar hluthafi sem geti selt þessi bréf öðrum og farið með atkvæðisrétt á bréfunum. „Það finnst mörgum þetta eitthvað óeðlilegt en svona gerast kaupin á eyrinni. Þetta brýtur ekki í bága við neinar reglur, til dæmis í verðbréfaviðskiptalögunum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×