Fótbolti

Finnan með annað augað á úrslitaleiknum

NordicPhotos/GettyImages

Varnarmaðurinn Steve Finnan hjá Liverpool segist ekki geta neitað því að hann sé kominn með annað augað á úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Liverpool mætir PSV Eindoven í fjórðungsúrslitum keppninnar annað kvöld í leik sem sýndur verður beint á Sýn klukkan 18:30.

Finnan var í liði Liverpool sem lyfti Evrópubikanum í Istanbul fyrir tveimur árum og segist ekki geta neitað því að hann hugsi til þess að endurtaka leikinn í Aþenu í vor.

"Þegar liðið er fimm leikjum frá því að endurtaka leikinn, væri ég að ljúga ef ég segði að maður væri ekki að hugsa um að vinna aftur. Næsti leikur verður okkur gríðarlega mikilvægur og Meistaradeildin er auðvitað eina keppnin sem við eigum möguleika á að vinna úr þessu," sagði Finnan og bætti við að sjálfstraustið væri í botni hjá enska liðinu eftir að það sló sjálfa Evrópumeistarana Barcelona úr keppninni.

"Sigurinn á Barca gaf okkur sjálfstraust en við vitum að PSV er hættulegt lið þó við höfum ekki tapað fyrir þeim í tveimur síðustu leikjum. Þeir slógu Arsenal úr leik og því eru þeir hættulegir. Bæði lið þekkjast mjög vel og því verður þetta stál í stál," sagði varnarmaðurinn og bætti við að tilhugsunin um úrslitaleik milli Manchester United og Liverpool væri spennandi möguleiki.

"Við eigum nú eftir að komast í gegn um PSV fyrst og svo annað hvort Chelsea eða Valencia - en því er ekki að neita að það yrði svakalegur leikur ef við myndum mæta United í enskum úrslitaleik. Það yrði frábært fyrir stuðningsmenn þessara erkifjenda," sagði Finnan í samtali við uefa.com. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×