Fótbolti

Rafa: Vanmetum ekki PSV

Rafa Benitez vanmetur ekki liðið sem sló Arsenal út úr Meistaradeildinni
Rafa Benitez vanmetur ekki liðið sem sló Arsenal út úr Meistaradeildinni AFP

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, hefur komið þeim skilaboðum áleiðis til leikmanna sinna að láta ekki blekkjast af slöku gengi PSV Eindhoven í hollensku deildinni undanfarið. Liverpool sækir PSV heim í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar annað kvöld og verður leikurinn sýndur beint á Sýn klukkan 18:30.

PSV hefur ekki náð sigri í fjórum leikjum í röð í hollensku deildinni og var liðið heppið að ná jafntefli gegn NAC Breda um helgina. Þá eru einnig nokkur meiðsli í herbúðum PSV.

"Við látum ekki blekkjast af árangri PSV í deildinni undanfarið. Við erum ekki það barnalegir að við höldum að leikurinn í Hollandi verði eitthvað auðveldur, því þeir munu mæta grimmir til leiks - ákveðnir í að komast í undanúrslitin. Ég hef engar áhyggjur af því að þeir mæti okkur ekki af fullum krafti þó menn séu meiddir hjá þeim.

Maður sér það oft ef að lykilmaður meiðist að sá sem leysir hann af hólmi kemur inn með auknum krafti og spilar jafnvel betur. Það getur reynst okkur hættulegt. Ég veit að PSV var líka með útsendara á leik okkar við Arsenal um helgina og þar sáu þeir okkur skora fjögur mörk og spila vel.

PSV mun klárlega reyna að sækja á okkur í fyrri leiknum og skora mörk - því þeir vita vel að það verður ekki auðvelt að skora á okkur í síðari leiknum á Anfield," sagði Benitez í samtali við Sky í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×