Menning

Skáldleg söguskoðun

Rithöfundurinn David Mitchell snýr aftur til Japan.
Rithöfundurinn David Mitchell snýr aftur til Japan. Mynd/ Miriam Berkley Random House

Breski rithöfundurinn David Mitchell vinnur nú að sinni fimmtu skáldsögu en hann hefur þegar vakið töluverða athygli fyrir bækur sínar Cloud Atlas, number9dream og Black Swan Green. Þær tvær fyrrnefndu voru til að mynda tilnefndar á stuttlista Man Booker bókaverðlaunanna á sínum tíma.



Í viðtali við vefútgáfu dagblaðsins The Japan Times ræðir Mitchell um nýju bókina sem ber vinnutitilinn Nagasaki. Mitchell hefur nú snúið aftur til Japan þar sem að ritferill hans hófst. Mitchell segir bókina sögulega skáldsögu þar sem hann leitast við að draga upp hliðstæður milli aðstæðna á japönsku eynni Dejima og lífsins í Hollandi á tímum Napóleons. Mitchell á japanska konu og bjó í Hiroshima í átta ár en Japan var eitt sögusviðanna í bók hans Ghostwritten.



Mitchell segir það mest krefjandi verkefni sitt til þessa að skrifa fjölmenningarlega skáldsögu þar sem japönskum og evrópskum sjónarmiðum er gert jafn hátt undir höfði. Rannsóknir hans hafa leitt hann á ýmsar villigötur en í viðtalinu ræðir hann einnig áhrif skáldskapar á söguskynjun lesenda. Hann segir sína eigin söguskoðun meðal annars komna frá Robert Graves og Dickens en getur þess að á meðan rithöfundar skrifi af einlægni og lesendur muni að þeir séu að upplifa skáldskap sé engin hætta á ferð. Aukinheldur þurfi sagnfræðingar að glíma við hálan afstæðisál þegar þeir rita sínar útgáfur sögunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×