Sport

Öllu tjaldað til í kvöld í Meistaradeild VÍS

Í kvöld fer fram fimmta keppnisgreinin af níu og mun keppnin í kvöld væntanlega marka þau skil milli keppenda að fræðilega ómögulegt verður fyrir þorra þeirra að sigra eftir kvöldið. Það er ljóst að knapar tjalda öllu sem til er í kvöld. Þorvaldur Árni, Siggi Sig og Viðar Ingólfs skipuðu þrjú efstu sætin í fimmgangi í fyrra og munu þeir allir mæta með sömu hross í kvöld, en þau eru í sömu röð Þokki frá Kýrholti, Skugga-Baldur og Riddari frá Krossi.



Það verður því erfitt verkefni fyrir aðra keppendur að höggva skörð í stgasöfnun þessarra kappa. Það er þó alls ekki þar með sagt að það sé útilokað því ef menn lesa í gegnum hestakost annarra keppenda kemur í ljós að menn og konur mæta gríðarlega sterk til leiks. Af öðrum ólöstuðum má í því sambandi nefna að Sigurbjörn Bárðarson mætir með Stakk frá Halldórsstöðum, Atli mætir með Tjörva frá Ketilsstöðum og Jói G. með Hrannar frá Þorlákshöfn. Ónefndir eru stólpagæðingar eins og Þytur frá Kálfhóli, Díana frá Heiði, Eitill frá Vindási og Leynir frá Erpsstöðum o.s.frv.

Það er einfaldlega mat manna að líklega sé um einhverja sterkustu fimmgangskeppni að ræða sem haldin hefur verið.

Liðakeppni meistaradeildarinnar er afar spennandi en þrjú efstu liðin hafa verið að skipta á sætum milli keppna, þ.e. lið Kaupþings, Málningar og Icelandair. Sigurbjörn Báraðrson er liðstjóri IB liðsins og þarf hann að brýna sitt lið ef það á að eiga möguleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×