Viðskipti innlent

Hagnaður Stoða rúmlega fimmfaldast

Fasteignafélagið Stoðir hf. skilaði tæplega 11,4 milljarða króna hagnaði á síðasta ári samanborið við tæplega 2,1 milljarðs króna hagnaðar ári fyrr.

Í ársuppgjöri Stoða kemur fram að rekstrartekjur félagsins hafi numið 6.191 milljón króna samanborið við 3.468 milljónir ári fyrr. Heildareignir samstæðunnar námu 156.634 milljónum króna en þær námu 72.538 milljónum í árslok 2005.

Eigið fé félagsins í lok síðasta árs nam 22.717 milljónum króna. Þar af nam hlutafé 2.200 milljónum króna. Til samanburðar nam eigið fé Stoða 10.832 milljónum í lok árs 2005.

Í árslok 2005 keypti félagið allt hlutafé í danska fasteignafélaginu Atlas Ejendomme A/S. Félagið keypti allt hlutafé í Löngustétt ehf. í maí og seldi  eignarhluti sína í Högum ehf. og DBH Holding ehf til Baugs Group.

Þá keyptu Stoðir í gegnum dótturfélag sitt Atlas Ejendomme II A/S verslunarhúsnæði ILLUM á Strikinu í Kaupmannahöfn og verslunarhúsnæði Magasin du Nord í Lyngby, Óðinsvé og Árósum á árinu.

Þá keypti félagið í síðasta mánuði liðins árs allt hlutafé í félaginu FS6 ehf. Helstu eignir þess eru Kringlan 1, 3 og 5. Því fylgir einnig byggingaréttur á Kringlusvæðinu, að því er segir í ársuppgjörinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×