Lögreglan í Bretlandi hefur gert húsleit í barnaskóla í Cambridgeshire eftir handtöku manns í tengslum við bréfasprengjurnar sem sprungu í London í síðustu viku. Maðurinn heitir Miles Cooper og er umsjónarmaður í Teversham kirkjuskólanum.
Lögreglan leitaði í skólanum eftir leyfi frá skólastjóra og skólayfirvöldum á svæðinu.
Sjö bréfasprengjur hafa verið sendar innanlands í Bretlandi á einum mánuði.
Nágrannar Miles lýsa honum sem hljóðlátum manni og dálitlum einfara. Hann hefur búið hjá móður sinni og systur á þrítugsaldri í tvo áratugi.