Mikil umskipti í fornleifarannsóknum á síðustu árum eru að skila bráðabirgðaniðurstöðum og þeim verður að skila til almennings og fræðasamfélagsins, heima og heiman. Fornleifafræðingar halda ráðstefnu í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í dag og kynna bráðabirgðaniðurstöður úr rannsóknum sem eru í gangi og hefst hún kl. 13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins.
Þar er fjallað um rannsóknir sem komnar eru til vegna framkvæmda, til dæmis á kumli í Hringsdal, minjum sem hurfu í lónið við Kárahnjúkavirkjun og persónurannsókn á 17. aldar kotbónda. Garðar Guðmundsson gerir grein fyrir rannsókn rústa við Kárahnjúka. Fundur þeirra var óvæntur og bendir til búsetu á svæðum sem hingað til hafa verið út úr kortinu.
Margrét Hrönn Hallmundardóttir segir frá kotum í Rangárþingi ytra. Þar hafa rústir komið í ljós vegna uppblásturs og er búið að gera svokallaða könnunarskurði gegnum þær. Guðrún Alda Gísladóttir segir frá athugunum úr könnunarskurðum á Útskálum í Garði. Á Litlu-Núpum í landi Laxamýrar í Aðaldal, S-Þingeyjarsýslu var grafið garðlög, tóft og möguleg kuml. Howell M. Roberts segir frá. Kristján Mímisson segir frá rannsókn á 17. aldar býli á Búðarárbakka í Hrunamannahreppi. Þá segir Oscar Alfred frá rannsókn vegna framkvæmda við tónlistarhúsið við Arnarhól. Steinunn Kristjánsdóttir mun að loknu kaffihléi greina frá rannsókn á tóft innan kirkjugarðsins á Hofi í Vopnafirði. Rannsókn á bæjarstæði í Vatnsfirði, Djúp, kynnir Guðrún Alda Gísladóttir.
Á Laugarfellsöræfum er í gangi frumrannsókn á bæjarstæðum Þórutófta, Sandmúla, Bálsbrekku og Helgastöðum á Krókdal. Orri Vésteinsson gerir grein fyrir uppmælingu og könnunarskurðum. Að síðustu segir Adolf Friðriksson frá kumlum og mannvirkjum í Hringsdal við Arnarfjörð.
Flestar þessar rannsóknir eru bráðaaðgerðir og oft unnar undir mikilli pressu verktaka sem verða að gera hlé á framkvæmdum ef minnsti grunur er um fornleifar.