Fagnaðarlæti brutust út í bönkum í Sófíu í Búlgaríu sem sáu um sölulok á 90 prósenta hlut Novators, félags í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, í búlgarska símafyrirtækinu BTC til bandaríska fjármálafyrirtækisins AIG Global Investment Group í gærmorgun. Verðið nam 1,4 milljörðum evra, um 127 milljörðum íslenskra króna. Þetta er einhver stærsta skuldsetta yfirtakan í SA-Evrópu til þessa.
Tómas Otto Hansson, framkvæmdastjóri hjá Novator, sem stýrði uppbyggingu fyrirtækisins í þau tæp fjögur ár sem Novator átti hlutinn, segir viðbrögðin hafa komið sér á óvart. „En þetta voru náttúrlega stærstu viðskiptin sem farið hafa í gegnum kauphöllina hér," segir Tómas, sem staddur var í Sófíu í gær.
Hagnaður Novator af sölunni er sagður 60 milljarðar króna. Tómas segir það í nærri lagi en bendir á að verðið endurspegli mikla umbreytingu á BTC. „Þetta hefur verið langur og strangur vegur," segir hann og vísar til þess að Novator hafi staðið fyrir mikilli hagræðingu innan veggja BTC. „Hagnaðurinn gefur einhverja mynd af því sem hefur gerst."