Innlent

Ungbarnadauði minnstur og íslenskir karlar áfram elstir í heimi

MYND/Getty Images

Ungbarnadauði er áfram minnstur á Íslandi og íslenskir karlmenn verða allra karla elstir. Þeir ná að meðaltali 79,4 ára aldri. Konur verða að meðaltali 83 ára samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands frá árunum 2005 og 2006. Lífslíkur íslenskra kvenna voru lengi betri en kynsystra þeirra í öðrum löndum. Nú verða japanskar konur hins vegar elstar, þá svissneskar og síðan spænskar.

Nokkuð hefur dregið saman með ævilengd kynjanna á Íslandi. Nú er munurinn 3,6 ár. Hann var um sex ár ár á sjöunda og áttunda áratugnum.

Mestur munur á ævilengd kynjanna er í löndum sem heyrðu áður undir Sovétríkin. Í Rússlandi er meira en þrettán ára munur. Þar geta karlar einungis vænst þess að verða tæplega 59 ára en konur rúmlega 72 ára. Ævilengd þeirra hefust styst frá árinu 1990.

Ungbarnadauði er áfram minnstur á Íslandi eða 2,4 miðað við hver þúsund börn sem deyja á fyrsta ári. Á heimsvísu kemur Japan næst með 3,0 og síðan norðurlöndin Svíþjóð, Noregur og Finnland. Í þessum löndum hefur ungbarnadauði minnkað um helming frá upphafi tíunda áratugarins. Í flestum ríkjum Evrópu er ungbarnadauði nú 5 af eitt þúsund.

Á Íslandi létust rétt um 1.900 einstaklingar á árinu 2006. Þar af voru 959 karlar og 942 konur. Dánartíðni er 6,2 á hverja eitt þúsund íbúa. Aldursbundin dánartíðni er hærri meðal karla í nær öllum aldurshópum, sérstaklega hjá einstaklingum á aldrinum 20-40 ára. Hún er hins vegar jöfn meðal einstaklinga undir tvítugu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×