Skoðun

Þróun sem virkar

Stefán Jón Hafstein skrifar
Besti fyrrverandi forseti Bandaríkjanna er Jimmy Carter. Hann er á níræðisaldri en ötull baráttumaður fyrir bættum hag fátækra í Afríku. Fyrir meira en 20 árum tók hann til við að útrýma sjúkdómi sem hlýst af lirfu orms sem tekur sér bólfestu í holdi manna. Lirfan þroskast inni í líkama fólks sem drekkur eða baðar sig í óhollu vatni. Ormurinn brýst að lokum út fullvaxinn og stendur eins og spaghettilengja úr fólki sem engist af kvölum. Áður þjáðust 3 milljónir manna árlega af þessari bölvun, nú eru árleg tilfelli 12.000. Með örlítið meiri stuðningi hefði Carter og fjölmörgum öðrum sem vinna gegn þessum ormi tekist að útrýma honum með öllu.

Þetta dæmi og mörg önnur sýna að talið um að þróunaraðstoð þýði ekki neitt á sér aðra hlið: Marktækan árangur sem bjargað hefur lífi milljóna manna eða bætt umtalsvert. Almennar bólusetningar á börnum hafa á liðnum áratugum náð miklu víðar en áður og tugir milljóna barna eru nú á lífi, en hefðu ekki verið það án átaks sem ráðist var í. Bólusetning við helstu sjúkdómum sem kostar innan við 2 þúsund krónur á barn.

Auðsköpun líkaÍbúar ríku landanna gleyma því stundum sem þeir hafa fyrir augunum: Flókið og gamalreynt kerfi laga og réttar, fjár- og stjórnsýslu, sem gerir þeim kleift að stunda viðskipti, fá lán og færa fé milli staða eftir öruggum samskiptanetum. Það tók nokkrar aldir að þróa þetta kerfi. Fátæku fólki stendur ekki til boða sú úrvalsþjónusta ríkisvaldsins, stjórnsýslu og banka sem við höfum. Hernando De Soto benti á hve mikil­vægt væri fyrir öflugt markaðskerfi að hafa þróaða umgjörð. Hann tók upp baráttu fyrir því að „hið óformlega hagkerfi“ þar sem lang flestir jarðarbúa stunda vinnu og viðskipti, yrði fært undir sams konar regluverk og við njótum. Annars væri ekki hægt að innleysa og nýta þann „leynda auð“ sem fátækt fór býr víða yfir. Annar hugsuður, nóbelsverðlaunahafinn Muhamm­ad Yunus, tók upp smálánakerfi fyrir fátækt fólk svo það fengi möguleika á að þróa viðskipti. Hugmyndin hjá báðum er sú sama: Gera fátæku fólki kleift að vinna fyrir sér eins og við hin gerum og skapa auð.

Nýjar lausnir í velferðÞað er viðurkennt að víða er fólk svo fátækt að það kemst ekki af án aðstoðar. Í Mexíkó hófst velferðarþjónusta með því sniði að borga fólki framfærslustyrk gegn því, til dæmis, að tryggja að börnin fari í skóla og fái reglulega bólusetn­ingar. „Oportunidades“ hefur breiðst víða út, og aðferðin jafnvel tekin upp í fátækrahverfum New York. Fólki er breytt úr „velferðarþegum“ í samábyrga borgara, með samningi sem felur í sér ávinning einstaklings og samfélags. Aðferð sem innleidd var í Tansaníu byggir á sömu hugmynd. Þeir sem þurftu bráðnauðsnylega að taka lyf vegna smitsjúkdóma eins og berkla fengu „lyfjavin“ til að fylgjast með; gengust þannig undir félagslegan þrýsting til að standa sig. Það kostar rúmlega 700 krónur að lækna berkla. Í Bangladesh fá fátækar fjölskyldur mat ef börnin mæta reglulega í skóla.

Samskiptanet og staðbundnar lausnirSmátt er gott, það sem bætir lífsskilyrði fólksins á vettvangi og snertir beint veruleika þess. Illa gengur að nýta sólarorkuna í sólríkustu löndum heims, en samt tók sig til auðmaður og þróaði sólarknúið vasaljós. Á loftslagsráðstefnuna í Balí kom maður akandi frá Sviss á sólarknúnum bíl. Hægt er að nýta orku sólar mun betur en gert er. Farsímar skapa gríðar­lega möguleika í Afríku; nú þarf ekki að leggja dýrar landlínur og fátækt fólk getur keypt símtalainneign fyrir smáaura og opnað sér leið að mörkuðum á svipstundu. 100 dollara fartölvan er langt komin og verður einstakt tækifæri fyrir Afríku í menntunar­málum.

Nú hafa menn séð að hin risavöxnu þróunarverkefni sem áður var lögð áhersla á, eru ekki jafn góð og ætlað var. Hagvöxtur mælir ekki jöfn tækifæri. Margir litlir sveitavegir sem tengja dreifðar byggðir smábænda eru miklu arðsamari en hraðbrautir. Hraðbrautir eru fyrir fáa; í löndum þar sem stór hluti þjóða býr við sjálfsþurftabúskap skiptir meiru að greiða samgöngur og glæða viðskipti þar sem fjöldinn er. Malaví neitaði að fara að ráðum Alþjóðabankans sem vildi hætta niðurgreiðslum á áburði til smábænda. Uppskeran í ár er meiri en nokkru sinni fyrr, að hluta vegna þess að farin var leiðin sem bændur þurftu, með niðurgreiddum áburði. Það hefur sjálfsagt farið framhjá mörgum, en Eþíópía tvöfaldaði matvælaframleiðslu sína síðasta áratug. Stóru kerfislausnirnar sem áður áttu að bjarga öllu með pennastriki og pólitískum lausnarorðum duga ekki; það sem dugar er að leysa málin á vettvangi á forsendum fólksins sjálfs. Meira efni um þessi mál er á vef mínum, www.stefanjon.is.

Höfundur starfar fyrir Þróunarsamvinnustofnun í Namibíu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×