Hljómsveitin Bon Jovi er komin á topp bandaríska Billboard-vinsældalistans í fyrsta sinn síðan 1988, eða í nítján ár. Nýjasta plata sveitarinnar, Lost Highway, seldist í tæpum 290 þúsund eintökum sína fyrstu viku á lista. Frá því mælingar hófust árið 1991 hefur sveitin aldrei selt jafnmikið í fyrstu vikunni í heimalandi sínu.
Tvær aðrar plötur Bon Jovi hafa komist á toppinn. Fyrst var það Slippery When Wet árið 1987 og ári síðar fór New Jersey sömu leið.