Menning

Lessing fer ekki til Svíþjóðar

Doris Lessing.
Doris Lessing.
Rithöfundurinn Doris Lessing, sem hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels í ár, getur ekki ferðast til Stokkhólms til að taka við verðlaununum vegna eymsla í baki.

Læknar hafa ráðið Lessing að hafa sig hæga og forðast ferðalög. Af þeirri ástæðu verða henni afhent verðlaunin við litla athöfn í heimaborg hennar, London.

Nóbelsverðlaun fyrir greinarnar bókmenntir, efnafræði, eðlisfræði, læknisfræði og hagfræði eru afhent við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi hinn 10. desember ár hvert. Sama dag eru friðarverðlaun Nóbels afhent í Osló. Dagurinn markar dánarafmæli Alfreds Nobel, upphafsmanns verðlaunanna, en hann lést 10. desember árið 1896.

Hefð er fyrir því að vinningshafar haldi erindi í Stokkhólmi áður en þeir fá verðlaunin afhent. Stefnt er að því að taka erindi Lessing upp á myndband og sýna við athöfn í Stokkhólmi áður en sjálf verðlaunahátíðin fer fram.

Lessing er þriðji handhafi bókmenntaverðlaunanna á aðeins fjórum árum sem ekki getur verið viðstaddur verðlaunaafhendinguna. Árið 2005 þurfti Harold Pinter að taka við verðlaununum í Bretlandi þar sem hann gat ekki ferðast af heilsufarsástæðum. Árið 2004 afþakkaði Austurríkismaðurinn Elfriede Jelinek boðið á hátíðina þar sem hú sagðist ekki vera í nægilega góðu andlegu jafnvægi til að þola svo mikla viðhöfn.

Aðeins einn handhafi verðlaunanna hefur afþakkað þau með öllu, en það var franski heimspekingurinn og rithöfundurinn Jean-Paul Sartre sem var útnefndur vinningshafi árið 1964. -vþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×