Ný plata frá hljómsveitinni The White Stripes kemur í verslanir hinn 18. júní næstkomandi. Þetta verður sjötta hljóðversplata The White Stripes, sú fyrsta síðan Get Behind Me Satan kom út árið 2005.
Nýja platan mun heita Icky Thump og aðdáendur sveitarinnar bíða spenntir eftir útkomunni. Sér í lagi þar sem um tíma var óttast um örlög sveitarinnar þar eð Jack White virtist líklegur til að helga sig alveg hliðarverkefni sínu, hljómsveitinni The Raconteurs.
Á vef breska tónlistartímaritsins NME er farið yfir nýju plötuna lag fyrir lag. Ef eitthvað er að marka þau skrif virðist Icky Thump æði spennandi.