Innlent

Synjunarvald forsetans er vilji þjóðarinnar

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands segist vera sannfærður um það að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vilji halda í synjunarvald forsetans. Eðli stjórnmálanna sé þannig að völd fari oft í taugarnar á þeim sem vilji hafa þau sjálfir. Menn megi hinsvegar ekki gleyma því að grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar sé að valdið sé hjá þjóðinni - ekki þinginu eins og til að mynda í Bretlandi.

Þetta kom fram í Silfri Egils í dag. Ólafur segist ánægður með störf stjórnarskrárnefndar. Stjórnarskrám eigi ekki að breyta eftir hendinni. Þær feli í sér grundvallarreglur og þar eigi að ríkja stöðugleiki. Hann segir þá þætti í stjórnarskránni sem snúi að stjórnskipun og valdastofnunum hafi staðist vel tímans tönn. Mannréttindaákvæði þurfi að endurnýja eins og hafi verið gert.

Hann segist telja að það hafi verið rétt ákvörðun að neita að staðfesta fjölmiðlalögin á sínum tíma og atburðarrásins síðar hafi sýnt fram á það. Meginrök þeirra sem vildu setja lögin hafi verið að fyrirtækjasamstaeypa vildi tröllríða öllum fjölmiðlamarkaði. Þessi sama samsteypa hafi síðar gefist upp á nýju fréttastöðinni og tímaritaútgáfu og fleiru af því fólkið í landinu hafi ekki viljað hlusta eða horfa. Fjölmiðlarnir séu fjórða meginstoðin í lýðræðissamfélagi, og frumvarpið hafi átt að hneppa þá í fjötra. Þess vegna hafi hann vísað málinu til þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×